Vertu memm

Frétt

Veitingastaðir og starfsmenn Keflavíkurflugvallar fá alþjóðlega viðurkenningu fyrir þjónustu

Birting:

þann

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur er á meðal bestu flugvalla í Evrópu í sínum stærðarflokki (5-15 milljónir árlegra farþega) hvað varðar þjónustugæði. Þetta sýna niðurstöður alþjóðlegrar þjónustukönnunar sem framkvæmd er á helstu flugvöllum heims á vegum Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI).

Í tilkynningu kemur fram að Keflavíkurflugvöllur hefur verið á meðal þátttakenda í könnunum ACI frá árinu 2004 og hefur alla tíð verið ofarlega á evrópska listanum, sem telur yfir 100 flugvelli vítt og breitt um álfuna. Nú er ljóst að Keflavíkurflugvöllur er einn af þeim átta sem fá hæsta meðaleinkunn í könnuninni og hlýtur því sérstaka viðurkenningu ACI fyrir þjónustugæði. Aðrir sem hljóta viðurkenningu í sama flokki eru flugvellirnir í Björgvin í Noregi, Izmir í Tyrklandi, Sochi í Rússlandi, Luqa á Möltu, Newcastle á Englandi og Porto flugvöllur í Portúgal.

Þjónustukönnun ACI, Airport Service Quality programme (ASQ), er virtasta og marktækasta mælingin sem gerð er á þjónustugæðum flugvalla. Við framkvæmd hennar eru farþegar á flugvöllum um allan heim spurðir staðlaðra spurninga um 34 þjónustuþætti. Því er um samræmdan og yfirgripsmikinn samanburð að ræða, bæði á milli flugvalla og á milli ára. Könnunin er framkvæmd á 356 flugvöllum um allan heim, þar af 115 í Evrópu. Keflavíkurflugvöllur er á meðal 37 flugvalla í sínum flokki, flokki evrópskra flugvalla með 5-15 milljónir árlegra farþega.

Viðurkenningin er fyrst og fremst afrakstur góðrar samvinnu allra rekstraraðila

„Við erum mjög stolt og ánægð að heyra að okkur hafi tekist að standast væntingar farþega og jafnvel að fara fram úr þeim. Viðurkenningin er fyrst og fremst afrakstur góðrar samvinnu allra rekstraraðila en flugvöllurinn er dæmdur út frá þjónustu allra þeirra sem hafa starfsemi á flugvellinum, hvort sem um er að ræða okkur hjá Isavia, starfsfólk verslana og veitingastaða, innritunar, vegabréfaeftirlits eða annarra þjónustuþátta.

Það er sérlega ánægjulegt að við höfum náð að halda uppi háum þjónustugæðum þrátt fyrir umfangsmiklar framkvæmdir og óhjákvæmileg þrengsli sem hafa myndast á álagstímum. Ég óska öllu starfsfólki á Keflavíkurflugvelli innilega til hamingju með þessa frábæru viðurkenningu.“

segir Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia.

Framúrskarandi þjónusta og upplifun viðskiptavina

„Verðlaun í þjónustukönnun ACI eru mesta viðurkenning sem stendur rekstraraðilum flugvalla heimsins til boða og eru þau veitt fyrir framúrskarandi þjónustu og upplifun viðskiptavina.

Í ár eru verðlaunin veitt mjög fjölbreyttum flugvöllum um allan heim. Það er til marks um hversu breið samstaða er innan flugvallageirans um þá skuldbindingu að leggja áherslu á góða þjónustu við farþega.“

Segir Angela Gittens framkvæmdastjóri ACI World.

ACI hefur nú tilkynnt um niðurstöður könnunarinnar en verðlaunin verða veitt formlega á alþjóðlegri þjónusturáðstefnu á vegum samtakanna í Kraká í Póllandi í september. Nánari upplýsingar um þjónustuverðlaun ACI er að finna hér.

Mynd: aðsend / Isavia

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið