Vertu memm

Uppskriftir

Uppskrift: Vanillu ástarpungar með viskí karamellusósu

Birting:

þann

Vanillu ástarpungar með viskí karamellusósu

Vanillu ástarpungar með viskí karamellusósu

Ástarpungar eru algjör klassík sem við þekkjum öll og elskum (haha). Það tekur enga stund að henda í deigið og þeir eru afskaplega einfaldir í steikingu. Ég mæli samt sterklega með því að nota olíu og sykur hitamæli eins og þennan hér við þessa uppskrift og þá sérstaklega karamellusósuna (sem er rugl góð).

Margir setja rúsínur út í sína ástarpunga en ég kýs að gera það ekki, það mun samt enginn stoppa þig ef þú laumast til þess.

Ástarpungar – 18-20 stk

Hveiti, 300 g

Lyftiduft, 0,5 tsk

Sykur, 30 g

Salt, 1/4 tsk

Vanillustöng, 1 stk

Egg, 2 stk

AB-mjólk, 250 g

Smjör ósaltað, 30 g

Hitaþolin olía til djúpsteikingar, 800 ml

Sykur + smá kanill til að velta upp úr.

  1. Bræðið smjör og látið kólna aðeins. Fræhreinsið vanillustöng. Pískið saman smjör, egg, AB-mjólk og vanillufræ.

  2. Pískið saman hveiti, lyftiduft, sykur og salt í stórri skál. Blandið því næst blautblöndunni saman við þurrblönduna og hrærið þar til allt hefur samlagast. Deigið verður klístrað og nokkuð þykkt.

  3. Hitið 800 ml af olíu upp í 180°C í potti. Notið ísskeið (þessar sem maður klemmir handföngin saman til að mynda kúlur) eða 2 skeiðar til þess að mynda pungana og setja varlega út í heita olíuna. Gott er að dífa skeiðunum í olíu inn á milli svo deigið festist ekki við þær. Steikið í 3.5-4 mín eða þar til pungarnir eru fallega brúnir og eldaðir í gegn.

  4. Færið ástarpungana á vírgrind til að kólna aðeins og veltið svo upp úr kanilsykrinum á meðan þeir eru enn heitir.

Viskí karamellusósa

Sykur, 200 g

Rjómi, 120 ml

Vanillustöng, 1 stk

Smjör ósaltað, 90 g

Viskí, 30 ml / Ég notaði Makers Mark

Flögusalt, 0,5 tsk

  1. Fræhreinsið vanillustöngina og hrærið fræjunum saman við rjómann.

  2. Setjið sykur í lítinn pott ásamt 60 ml af vatni. Hellið vatninu varlega yfir sykurinn svo enginn sykur skvettist upp í kantana á pottinum því það getur valdið því að sykurinn kristallist og skemmist þegar hann fer að sjóða.

  3. Stillið á miðlungshita og látið bubbla án þess að hræra í sykrinum þar til sykurinn verður að karamelllu, þetta getur tekið nokkrar mínútur en alls ekki fara frá pottinum því hluturnir geta gerst hratt og skyndilega. Hægt og rólega ætti liturinn á sykrinum að verða ljósbrúnn og dökkna svo í framhaldinu. Þetta byrjar að gerast við 160°C.

  4. Takið pottinn af hitanum þegar liturinn er farinn að minna á hlynsíróp en áður en hitinn nær 180°C. Hafið þá hraðar hendur.

  5. Hellið rjómanum hægt og rólega saman við karamelluna og pískið vel á meðan svo hann samlagist karamellunni. Karamellan mun bubbla kröftuglega og hleypa frá sér gufu þegar rjómanum er bætt við. Farið því varlega!

  6. Pískið smjörið næst saman við karamelluna og að lokum viskí og flögusalt.

  7. Færið karamelluna í skál eða krukku og látið kólna til fulls. Karamellan mun þykkna töluvert þegar hún kólnar.

Uppskrift og mynd: Matur og Myndir | Snorri Guðmundsson

Uppskriftirnar á veitingageirinn.is eru frá fagmönnum og áhugafólki á matargerð sem skilar fjölbreyttar og bragðgóðar uppskriftir til þín. Ef þú lumar á uppskrift sem þú vilt birta á veitingageirinn.is sendu okkur þá uppskriftina ásamt nafni á [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið