Vertu memm

Nemendur & nemakeppni

Ungkokkar Íslands brilleruðu á árshátíð KM

Birting:

þann

Ungkokkar Íslands

Hluti af Ungkokkum Íslands.
F.v. Megija Zune, Baldur Smári Sævarsson, Jón Þorberg Óttarsson, Burkni Þór Bjarkason, Kristleifur Darri Kolbeinsson og þeim til aðstoðar var Tómas Ingi Jórunnarson.

Eins og fram hefur komið þá var árshátíð Klúbbs Matreiðslumeistara haldin á Siglufirði á laugardaginn fyrir viku.

Um matseldina sáu Ungkokkar Íslands um og þeim til aðstoðar var Tómas Jórunnarson starfandi matreiðslumaður á Hótel Sigló.  Félagsskapurinn Ungkokkar Íslands starfar sem sjálfstæð eining innan Klúbbs Matreiðslumeistara. Fréttamaður veitingageirans kíkti á Ungkokkana sem voru í fullum undirbúningi í vinnslueldhúsi sem staðsett er við hlið veitingastaðarins Rauðku á Sigló og það mátti greinilega sjá að hér er kominn saman metnaðarfullur hópur.

Ungkokkar Íslands

Kara Guðmundsdóttir matreiðslumaður og liðstjóri liðsins var á staðnum og fór vel yfir alla þætti og útskýrði hvernig hlutirnir ættu að vera, en gaf samt meðlimum lausan taum til að blómstra í keyrslunni. Liðstjórar Ungkokka Íslands eru Kara Guðmundsdóttir og Logi Brynjarsson matreiðslumenn.

Einungis hluti af hópnum var á Siglufirði, en meðlimir í Ungkokkum Íslands eru 15 talsins:

 • Arnór Daði Jónsson – Hilton
 • Baldur Smári Sævarsson – Icelandair hotels Mývatni
 • Brynjólfur Birkir Þrastarsson – Moss
 • Burkni Þór Bjarkason – Sumac
 • Dagníel Óskarsson – Natura
 • Guðmundur Jónsson – Bláa lónið
 • Guðni Björnsson – Bláa lónið
 • Harpa Sigríður Óskarsdóttir – Slippurinn
 • Jón Þorberg Óttarsson – Humarhúsið
 • Kristleifur Darri Kolbeinsson – Natura
 • Megija Zune – Brasserie
 • Michael Pétursson – Mathús Garðabæjar
 • Nickolai ceasarrio – Grillið
 • Sigþór Daði Kristinsson – Grillið
 • Wiktor pálsson – Grillið

Og hvernig smakkaðist maturinn?

Ungkokkar Íslands

Reykt ýsa, kartöflumauk, uppstúf, rúgbrauð og söl

„Skemmtileg samsetning, flott eldun á ýsunni sem var hæfilega reykt ekki of mikið, gott kartöflumauk, uppstúf var létt í froðustíl, krönsí rúgbrauð og djúpsteikt söl sem var algjört sælgæti.“

Ungkokkar Íslands

Lambafile, lambaöxl, grænkál, rófur, gulrót og hafrar

„Góð eldun á lambakjötinu þó hefði mátt vera minna eldað fyrir minn smekk, hægelduð lambaöxl kom virkilega vel út, grænmetið var gott og kremað bygg með parmesan var winner“

Ungkokkar Íslands

Súkkulaði pralín, marengs, kirsuber og kardimomma

„Mjög góður réttur og góður endir á flottum kvöldverði“.

 

Myndir: Smári

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar >>

Nemendur & nemakeppni

Mest fækkun nema í matreiðslu og framreiðslu – Ný reglugerð kynnt

Birting:

þann

Kokkar

Í samráðsgátt stjórnvalda er kynnt til umsagnar ný reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun sem ætlað er að koma í stað eldri reglugerðar.

Með nýrri reglugerð, sem að Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir, eru skólar gerðir ábyrgir fyrir því að iðnnámsnemandi komist í vinnustaðanám, nemendum er gert auðveldara að ljúka starfsþjálfun sinni óháð stöðu í atvinnulífinu og tímalengd vinnustaðanámssamnings látin miðast við hæfni nemenda en ekki fjölda vikna á vinnustað.

Núverandi skipulag verk- og starfsnáms gerir ráð fyrir að starfsgreinaráð, fyrir hönd atvinnulífsins, skilgreini starfalýsingar og hæfnikröfur fyrir hvert starf og að þær séu endurskoðaðar reglulega. Starfsnámsskólarnir skipuleggja síðan námsbrautalýsingar svo nemendur öðlist þá hæfni sem atvinnulífið þarfnast á hverjum tíma. Í meginatriðum, og með fáum undantekningum, er vinnustaðanám skipulagt þannig að gerður er námssamningur milli iðnmeistara og iðnnema. Kveðið er á um umfang vinnustaðanáms í námsbrautalýsingum, þar sem vinnuviknafjöldi er tilgreindur. Fjöldi vinnuvikna er ólíkur milli iðngreina er yfirleitt á bilinu 48 – 120 vikur. Vinnustaðanámið fer þannig fram að gerður er starfsþjálfunarsamningur. Nemandinn er launþegi hjá því fyrirtæki sem meistarinn starfar hjá eða rekur og þiggur laun samkvæmt kjarasamningi um nemalaun. Samningstíminn er mældur með lífeyrissjóðsgreiðslum atvinnurekanda. Þegar tilteknum vikufjölda er náð samkvæmt lífeyrissjóðsgreiðslum telst viðkomandi nemandi hafa lokið vinnustaðanáminu.

Í núverandi atvinnuástandi hefur nemendum á starfsþjálfunarsamningum fækkað. Munar þar mestu um fækkun nema í matreiðslu, framreiðslu, húsasmíði og rafiðngreinum. Fyrirtæki hafa haldið að sér höndum og síður tekið nýja nema á námssamning í stað þeirra sem ljúka vinnustaðanámi. Einnig hefur borið á því að námssamningum nema hafi verið sagt upp og þeir ekki komist á námssamning aftur eða annars staðar. Á haustönn 2020 tóku starfsnámsskólarnir jafnframt inn fleiri nemendur en þeir hafa alla jafna gert vegna mikillar eftirspurnar. Sú fjölgun mun leiða til þess að fleiri nemar þurfa að komast á samning en áður, samhliða þrengingum í atvinnulífinu.

Sumar iðngreinar hafa tekið breytingum á undanförnum árum. Til eru greinar sem eru að miklu leyti samansettar af einyrkjum og fámennum vinnustöðum. Slíkar greinar eiga erfitt með að taka á sig þær skuldbindingar sem fylgja því að taka nema í vinnustaðanám. Aðrar greinar hafa einnig orðið sérhæfðari og ekki hefur því verið unnt að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til iðnmeistara á aðeins einum vinnustað. Kallað hefur verið eftir nýjum leiðum og auknu samstarfi skóla og atvinnulífis við að útskrifa nemendur við þessar kringumstæður. Þörf er á nýliðun í mörgum af þessum greinum og því nauðsynlegt að fjölga möguleikum nemenda og mynda sterkari tengsl atvinnulífs og skóla.

Í drögum að nýrri reglugerð um vinnustaðanám eru nú tilgreindar tvær leiðir í vinnustaðanámi; annars vegar iðnmeistaraleið, sem byggir á núverandi samningsleið og hins vegar skólaleið, sem er ný. Með þessum breytingum er komið í veg fyrir óvissu nemenda sem vilja stunda iðnnám þar sem útskrift hans verður á ábyrgð skóla. Hægt verður að grípa til ráðstafana ef nemandi kemst ekki á hefðbundinn iðnmeistarasamning. Með breytingum á reglugerðinni má einnig ætla að hægt verði að dragi úr líkum á brotthvarf nemenda.

Samkvæmt gildandi reglugerð er nemanda gert að finna sér iðnmeistara og gera við hann samning. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í nýrri reglugerð verður skólinn ábyrgur fyrir því að nemandinn komist á samning. Þessi breyting er í takt við umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 en þar sagði m.a.: „Frumvarpið miðar að því:… að tryggja hag og stöðu nemenda í iðn- og verknámi, og starfsnámi almennt, m.a. með því að framhaldsskólar beri ábyrgð á vinnustaðanámi“ og „Að skólar taki ábyrgð á námi nemenda í starfsnámi m.a. með því að tryggja þeim samninga við aðila sem standast kröfur sem skólar setja um vinnustaðanám og starfsþjálfun. Í dag er slíkt undir hælinn lagt, þ.e. hvort nemandinn komist í starfsþjálfun annars vegar og hins vegar hvort hún komi að því gagni sem þarf. Hér er um mjög mikla breytingu að ræða frá núverandi kerfi þar sem það er á ábyrgð nemandans að komast í starfsþjálfun að loknu námi á viðkomandi braut í skóla. Með þessari breytingu eru bundnar vonir við að samstarf skóla og atvinnulífs eflist nemendum til hagsbóta. Með þessu skapast einnig sterkari tengsl skóla og vinnustaða.“

Eins og áður segir er skv. reglugerðinni gert ráð fyrir að um verði að ræða tvær leiðir í vinnustaðanáminu, annars vegar iðnmeistaraleið og hins vegar svokölluð skólaleið. Áður en skólaleiðin er farin skal skóli hafa fullreynt að koma nemenda á iðnmeistarasamning og tilkynnt það til meistarafélags iðnarinnar. Í skólaleiðinni er gert ráð fyrir að skólinn sjái um að skipuleggja vinnustaðanámið. Áfram er gert ráð fyrir að nemandi á iðnmeistarasamningi fái laun í samræmi við gildandi kjarasamning, en miðað er við að nemendur á skólasamningi verði launalausir. Eins og áður hefur komið fram er vinnustaðanám á skólaleið skipulögð af skóla og framkvæmd í samvinnu við vinnustað, en vinnustaðanám samkvæmt iðnmeistarasamningi er skipulagt af vinnustað. Vegna mögulegrar sérhæfingar vinnustaðar gera báðar leiðir ráð fyrir því að nemandi gæti þurft að nema á fleiri en einum vinnustað til að uppfylla kröfur um hæfni.

Tímalengd starfsþjálfunar er í núverandi kerfi skilgreind í vikum og birt í námsbrautalýsingum. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er gert ráð fyrir að birt tímamörk í námsbrautalýsingum séu hámarkstími starfsþjálfunar, en mat á hæfni nemanda ráði tímalengd starfsþjálfunar. Þannig geti námstími orðið mislangur. Miðað er við að fulltrúi skóla og vinnustaðar meti sameiginlega hæfni nemanda í einstökum þáttum og haldi rafræna ferilbók utan um ferlið bæði þegar um er að ræða iðnmeistarasamning og skólasamning.

Menntamálastofnun hefur umsjón með rafrænni ferilbók, en í hana er skráð hæfni nemandans. Með notkun rafrænnar ferilbókar má efla gæði og samræmingu starfsþjálfunar, tryggja yfirsýn yfir hæfni og framvindu nemandans og auðvelda nemanda og skóla að halda utan um námið. Í rafrænu ferilbókinni er tiltekin hæfni nemanda staðfest af umsjónarmönnum skóla auk iðnmeistara, fyrirtækis og stofnana eftir því sem við á.

Öll starfsgreinaráð vinna nú að því að endurnýja starfalýsingar og hæfnikröfur, undir stjórn Menntamálastofnunar sem einnig heldur utan um vinnu faghópa við að skilgreina hæfniþætti starfa sem skráðir eru í rafræna ferilbók.

Mynd: úr safni

Lesa meira

Nemendur & nemakeppni

Á Íslandi sárvantar kjötiðnaðarmenn

Birting:

þann

Guðríður Eldey Arnardóttir

Guðríður Eldey Arnardóttir

Nautalund, hamborgarhryggur, beikon, pylsur, bjúgu, skinka, salami og malakoff.

Þetta ljúfmeti verður ekki til af sjálfu sér en það er meðal annars í verkahring menntaðra kjötiðnaðarmanna á Íslandi að skera til kjöt og fullvinna til neytenda. Kjötiðnaður er ein undirstaða matvælaframleiðslu hvort sem vel eða illa árar. Á síðustu árum hefur orðið mikil framþróun í fagi kjötiðnaðarmanna og fagið sífellt fjölbreyttara. Það sést best af sælkeraverslunum og kjötvinnslum sem vinna úrvalsvöru okkur öllum til yndisauka.

En það vantar kjötiðnaðarmenn. Það er enda ekkert atvinnuleysi meðal kjötiðnaðarmanna. Námið tekur fjögur ár að loknu grunnskólaprófi, þar af 3 annir í skóla og 5 annir í launuðu starfsnámi. Og eins og með aðrar iðngreinar geta þeir sem hafa reynslu í matvælaiðnaði undirgengist raunfærnimat og mögulega stytt sér leið að námslokum.

Laun kjötiðnaðarmanna eru góð og þeirra bíða fjölbreytt atvinnutækifæri og eru möguleikar miklir á að skapa sér spennandi tækifæri með nýsköpun og hugmyndaauðgi. Almennt er nám í kjötiðn samningsbundið en nú ætlar Menntaskólinn í Kópavogi að bjóða einstaklingum að hefja nám í kjötiðn á hausti komandi án námssamnings. Þarna er tækifæri. Hafirðu unnið í matvælaiðnaði, matreiðslu, nú eða bara ef þú hefur áhuga á mat, ættir þú að skoða nám í kjötiðn í Menntaskólanum í Kópavogi. Þar er bjart yfir öllu, aðstaða til fyrirmyndar og kennarar frábærir. Komdu fagnandi og hafðu samband á [email protected] – við svörum þér að bragði.

Guðríður Eldey Arnardóttir
Skólameistari Menntaskólans í Kópavogi

Lesa meira

Nemendur & nemakeppni

Hvernig fór verklega kennslan fram á tímum Covid veirunnar?

Birting:

þann

Á þessum sérstöku tímum hafa flest allir kennarar landsins þurft að hugsa í lausnum og meta hvernig hægt sé að kenna nemendum í fjölbreyttum áföngum í fjarnámi.

Kennarar matsveina- og matartæknadeildar í Hótel og matvælaskólanum voru ekki undanskildir því verkefni. Í upphafi samkomubanns var tekin ákvörðun um að leggja áherslu á fjarnám í bóklegum faggreinum og klára að mestu leyti fyrir páska með þeirri von um að samkomubannið lyki þann 13. apríl eins og upphaflega stóð til.  Sú varð ekki raunin.

Stóðu þá kennarar frammi fyrir nýrri áskoðun og veltu mikið fyrir sér hvernig mætti útfæra verklega kennslu á tímum Covid veirunnar.

Hugmynd vaknaði hjá kennurum að nemendur gætu sótt hráefni fyrir verklega kennslustund í skólann en sjálft verkefnið yrði unnið heima.

Nemendur fengu úthlutað verkefnum og sóttu síðan hráefnispakka í skólann, á fyrirfram gefnum tíma, sem innkaupastjóri og kennarar áfangans höfðu tekið saman. Jafnframt fengu þeir senda á rafrænan hátt greinargóða verkefnalýsingu.

Á meðan á verkefninu stóð tóku nemendur myndir. Þeir skiluðu síðan rafrænt til kennara uppskriftum, skipulagi, myndum og ígrundun. Verkefnið og fyrikomulagið tókst vel til og mæltist vel fyrir hjá nemendum og fjölskyldum þeirra sem nutu góðs af.

Matsveina- og matartæknanám er stutt hagnýtt nám.

Fyrir áhugasama þá er opið fyrir innritun á menntagatt.is, til 31. maí.  Allar upplýsingar um námið fást hjá Baldri Sæmundssyni á netfangið [email protected]

Myndir: aðsendar

Lesa meira

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:

Mest lesið í dag