Vertu memm

Frétt

Silence Meal – þögul máltíð | Spennandi matarviðburður

Birting:

þann

Þögul máltíð - Silence Meal

Mér var kennt að sitja hljóður og stilltur við matarborið þegar ég var ungur drengur.  Foreldrar mínir lögðu áherslu á það að kenna okkur systkinunum góða borðsiði.

Í dag þykir mér vænt um þessar lexíur sem ég fékk að læra sama hvort mér líkaði það betur eða verr.  Stundum endaði kennslan með gráti því mér var það algjörlega ómögulegt að halda rétt á hníf og gaffli.

Mótþróinn og þrákelkni fór mikið fyrir brjóstið á föður mínum. Ég virtist þó í grundvallaratriðum ná þessu svona nokkurn veginn að lokum og því sannfærðist pabbi um að ég væri ekki verulega illa af Guði gerður – blessuð sé minning hans.

Silence Meal

Á  dögunum sat ég í Norræna húsinu og snæddi þriggja rétta máltíð með góðu víni í þögn eða eins og það heitir „Silence Meal“ sem finnska listakonan Nina Backman stendur fyrir.

Nina hefur ferðast með þessa uppákomu víða um heiminn og yfirleitt fengið frábærar viðtökur. „Það er klárt“ sagði hún okkur eftir á „að fólk bregst misjafnlega við álaginu.  Það að sitja þögull og óþekktur meðal ókunnra og snæða getur reynst sumum erfitt“.

Við borðið sitja bráðókunnugar manneskjur sem ef til vill eru þjóðkunnar en hvað vissi ég ?   Sögumaðurinn er því miður með með afbrigðum óminnugur á nöfn og andlit.

Auk þess glími ég við nokkuð alvarlegra vandamál en það er að ég man aldrei hver er frægur eða ófrægur og það getur verið slæmt.  Ég næ sjaldan að státa mig af að hafa hitt þennan eða hinn.  Þetta er frekar óþægilegt og þegar ég ætla að segja skemmtilegar sögur úr vinnunni.

Einu sinni kom heimsfrægur stjörnukokkur í eldhúsið til mín og ætlaði að þakka mér fyrir eitthvað sem ég hafði gert fyrir hann. Ég hélt að þar færi gamall og góður vinnufélagi og ég heilsaði honum kumpánlega sem slíkum.

Þetta varð smá vandræðalegt en við höfðum síðan báðir gaman að þessu og spjölluðum lengi. Hann fékk leiðsögn um ranghala hótelsins og var sáttur og kom stundum aftur að spjalla þegar hann millilenti.

Spennandi matarviðburður

Ég var að sjálfsögðu feikilega spenntur yfir því að fá að vera með á þessum viðburði eða gjörningi í Norræna húsinu. Vissi það eitt að þetta snerist ekki bara um góðan mat heldur einnig áhugaverðan lista- og menningar viðburð og það er ástæða fyrir því að við sátum úti í gróðurhúsinu fyrir utan Norræna húsið og gæddum okkur á glæsilegri þriggja rétta máltíð.

Það var hlýtt og notalegt inni þó að vindurinn gnauðaði fyrir utan.

Sumir sátu dúðaðir í teppi þó að sæmilega hlýtt hafi verið inni, aðrir báru sig mannalega og þetta var gaman og ótrúlega skemmtileg upplifun.

Að  sitja hljóður og virða sessanauta sína fyrir sér snæða veislumáltíð og drekka dýrindis vín er ný og öðruvísi upplifun.  Öll skinfæri voru á fullu, maturinn naut sín frábærlega sem og lyktin. Ekkert truflaði. Einbeitningin var algjör. Ég hefði ekki vilja missa af þessu.

Þögul máltíð - Silence Meal

Góð skemmtun

Það er vont að lýsa þessari skemmtilegu upplifun myndalaust. Ég held því að besta samantektin sé: Ánægja og upplifun.

Ég gæti skrifað langlokur um hvað gerðist og upplifunina sem var hressandi en ætla að hafa þetta sem styðst. Engin ástæða til að ég skemmi fyrir þeim sem ætla sér að fara.

Það verða nefnilega önnur uppákomur núna 28. nóvember með góðum mat og víni.

Verðinu er stillt í hófi og maturinn svíkur ekki neinn og þetta er eitthvað sem er virkilega þess virði að prufa. Miða er að fá í Norræna húsinu eða á netinu en þeir eru mjög takmarkaðir.

Ef þú vilt og prufa verulega öðruvísi máltíð með Ninu Backman og með frábærum mat sem Sveinn Kjartansson matreiðslumeistari á Aalto Bistro töfrar fram þá skelltu þér með þann 28/11 nk. Það er þess virði. Þetta er góð skemmtun. Þetta er upplifun.

Það að sitja þögull til borðs með ókunnu fólki,  þurfa ekki að halda upp samræðum eða eiga nein samskipti við neinn er ofboðslega frelsandi. Upplifið ævintýri.

Myndir: aðsendar

Ólafur Sveinn er menntaður sem matreiðslumeistari og rekstrarfræðingur af matvælasviði frá Göteborg Universitet. Í dag starfar Ólafur hjá HSS í Reykjanesbæ og hefur skrifað lengi um veitingastaði ásamt ljósmyndun fyrir veitingastaði og hótel. Hægt er að hafa samband við Ólaf á netfangið [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið