Vertu memm

Smári Valtýr Sæbjörnsson

Nýir eigendur 1862 í Hofi á Akureyri – Fjórði veitingastaðurinn í veitingaflóru Hallgríms

Birting:

þann

Hallgrímur Sigurðarson

Hallgrímur Sigurðarson
Mynd: skjáskot úr myndbandi N4

Hallgrímur Friðrik Sigurðarson matreiðslumeistari situr ekki auðum höndum þessa dagana, en fyrir utan það að reka þrjá veitingastaði við Ráðhústorgið á Akureyri hefur hann keypt rekstur 1862 í Hofi.  Áður áttu þrír að jöfnu veitingastaðinn 1862, Hallgrímur, Vignir Már Þormóðsson og Leifur Hjörleifsson.

1862 Nordic Bistro

Þann 1. apríl síðastliðinn keyptu Hallgrímur Friðrik Sigurðarson og eiginkona hans Þóra Hlynsdóttir hlut þeirra félaga Vignirs Þormóðssonar og Leifs Hjörleifssonar í rekstri 1862 Nordic Bistro í Hofi.
F.v. Vignir Þormóðsson, Leifur Hjörleifsson, Hallgrímur Friðrik Sigurðarson, Þóra Hlynsdóttir.
Mynd: facebook / 1862 Nordic Bistro

Hvað kom til að þú keyptir allan reksturinn?

„Við opnuðum 1862 í Hofi sumarið 2010 og ég hef alltaf átt minn hlut og nú var komið að því að meðeigendur mínir vildu snúa sér að öðrum verkefnum. Ég sá viss tækifæri í rekstrinum og ákveðin samlegðaráhrif í því að reka alla fjóra veitingastaðina undir einni stjórn og sló því til,“

sagði Hallgrímur í samtali við veitingageirinn.is en hann og konan hans Þóra Hlynsdóttir eiga og reka nú fjóra veitingastaði á Akureyri, TBone steikhús, Kung Fu, R5 Bar og nú 1862 Nordic Bistro.

T Bone steikhús.

T Bone steikhús.
Mynd: facebook / T Bone Steikhús

T Bone steikhús

T Bone steikhús býður uppá metnaðarfullan steikar- og vínseðil.
Mynd: facebook / T Bone Steikhús

1862 Nordic Bistro

1862 Nordic Bistro er staðsett í Hofi á Akureyri.
Mynd: facebook / 1862 Nordic Bistro

Hefur þú ekki í nógu að snúast með hina staðina að fjórði er ofaukið eða er sólahringurinn hjá þér lengri en hjá öðrum? , spyr fréttamaður í léttum tón, hvernig ferðu að púsla öllu þessu saman?

„Þetta er oft ansi strembið og ekki laust við að maður sé á góðu „floti“ þessa dagana.  Það er hver einasta mínúta nýtt til hins ýtrasta og mitt frábæra starfsfólk í raun ástæða þess að þetta gengur upp.  Án rúmlega 30 samstarfsmanna allra staðanna væri ég ekki að gera mikið. Það væri hinsvegar mikil bót í ca. 4-5 klst. lengingu á deginum“.

Verða einhverjar áherslubreytingar á 1862?

„Nýju fólki fylgja alltaf breytingar og tel ég mig hafa fullt erindi í að efla reksturinn enn frekar. Með mikilli aukningu ferðamanna verða líka breytingar og afar mikilvægt að hlúa að innviðum þjónustugeirans, sem ég ætla mér að gera í gegnum mín fyrirtæki“.

R5 microbar

R5 bar býður upp á mikið úrval af yndislegum bjórum, litlir, stórir, dökkir, ljósir, feitir og grannir.
Mynd: facebook / R5 bar

Núna ertu eigandi að fjórum veitingastöðum á Akureyri, hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?

„Ég vakna með dóttur minni um kl. 07 og labba oft með henni á leikskólann. Ég er mættur á skrifstofuna uppúr 8 og fer í gegnum tölvupósta dagsins og verkefni.  Starfsfólkið byrjar að mæta um kl. 09 og þá hefst undirbúningur og innkaup fyrir komandi verkefni veitingastaðanna sem eru eins fjölbreytt og þau eru mörg. Ég stekk oft í gallann og reyni að gera gagn , en að er því miður ekki nógu oft þar sem fæturnir segja oft stopp, en þá er mikið meira en nóg að gera fyrir framan tölvuna og í blessuðum símanum“.

Kung Fu Sticks + sushi

Kung Fu.
Mynd: facebook / Kung Fu Sticks + sushi

Hallgrímur slasaðist alvarlega í vélsleðaslysi

Hallgrímur lenti í mjög alvarlegu slysi á Páskadag árið 2013, en þá lenti hann í vélsleðaslysi þegar hann var ásamt hópi manna á snjósleða í Bíldsárskarði í Eyjafirði.  Hallgrímur brotnaði nánast á öllum vinstri helmingi líkamans eftir slysið, báðir fæturnir voru brotnir, vinstri handleggurinn og níu rifbein.

Hallgrímur dvaldi mánuðum saman á sjúkrahúsi eftir slysið og var á meðal í hjólastól um tíma.

Hvernig er heilsan í dag, ertu búinn að ná fullum bata?

„Í dag reyni ég að hugsa eins lítið um slysið og ég get og eru verkefnin sem ég hef tekið mér fyrir hendur sérstaklega til þess fundin. Ég er hinsvegar minntur á þetta slys í hverju skrefi sem ég tek og verð það framvegis. Ég kurlaði á mér hægri ökkla og vinstra hné og ljóst að ég verð aldrei samur aftur. Það eru mismikil óþægindi en alltaf einhver. Suma daga er ég nánast stopp en þá tekur ansi vænn skammtur af þrjósku við og ég held áfram.

Ég hef verið skorinn oftar en ég vil muna og fullur af einhverjum fínum varahlutum úr byggingageiranum og eitthvað á eftir að bæta við segja læknar. Nú kýs ég að fara helst ekki til læknis, þeir finna alltaf eitthvað að mér blessaðir og vilja stoppa mig en fá það ekki í bráð.“

Nú höfum við séð þig annað slagið á sjónvarpsstöðinni N4 með matar- menningartengda þætti, verður meira af því?

„Síðasta ár hefur veitingabransinn átt mig alfarið og ekki tími til annarra verkefna. Síðasta haust gerði ég hinsvegar 10 þætti um Bocuse-faranna okkar, sem var afar skemmtilegt verkefni. Nú er ég búinn að gera um 60 sjónvarpsþætti í allt og kannski kominn tími til að gefa fólki frí frá mér. En að vinna í sjónvarpi er afskaplega skemmtileg og gefandi vinna og vonandi fæ ég tækifæri að vinna meira við það einhverntímann.

Á N4 er frábært fólk og ótrúlegt hvað er mikið gert þar miðað við peningana sem eru til þess. Ég veit ekki um stöð sem framleiðir jafnmikið af íslensku efni daglega, utan fréttatíma Stöð 2 og RUV. Það er lykilatriði að fjölmiðlar „úti á landi“ geti starfað og minnt 101 RVK reglulega á að það er líf ofan Ártúnsbrekkunnar!“

N4 myndbönd

Heimasíður:

www.tbone.is
www.1862.is
www.kungfu.is
www.r5.is

 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið