Vertu memm

Frétt

Nanna Rögnvalds matargúrú ánægð með Freistingu

Birting:

þann

Nanna V. Rögnvaldardóttir

Nanna V. Rögnvaldardóttir

Það er greinilegt að Nanna Valgerður Rögnvaldardóttir eða Nanna Rögnvalds eins og hún er oft nefnd er ánægð með Galadinnerinn hjá KMFÍ sem haldinn var um helgina í Gerðarsafninu, þar sem Freisting sá um alla matseld ásamt Ung-Freistingu. Nanna talar um að hún hefði viljað aðeins meira af lambanýrunum, þar sem henni fannst þau verulega góð. Og síðan var eftirminnilegasti rétturinn epla- og kampavínshlaup.

Hér fyrir neðan eru hugleiðingar hennar Nönnu um „Bleika boðið“ á vefnum Gestgjafinn.is sem hún ritstýrir.

Nanna Rögnvalds

Loksins fékk ég að borða …
Ég var í Bleika boðinu í gær, fjáröflunarkvöldverði Krabbameinsfélagsins sem matreiðslumannaklúbburinn Freisting stóð fyrir og ætlunin er að verði að árlegum viðburði. Allir sem að samkvæminu komu gáfu framlag sitt, vinnu, vörur og annað, til styrktar baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Hið sama var að segja um listamenn sem þarna komu fram en það voru m.a. leikkonurnar Þórunn Lárusdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir og María Ellingsen, sem var kynnir kvöldins, og söngvararnir Ólafur Kjartan Sigurðsson og Þóra Einarsdóttir, sem skemmtu gestum af mikilli list.

Freistingarstrákarnir stóðu sig ljómandi vel í eldhúsinu en á matseðlinum var m.a. saltfisks-brandade (fínna orð yfir plokkfisk, ef þið vissuð það ekki), tartar úr reyktri gæs með rauðrófum og eplum, ágætur humar með ýmsu góðgæti og gulróta- og kúmenský (froðukennd súpa, hefði mátt draga örlítið úr kúmennotkuninni). Aðalrétturinn var svo lambahryggvöðvi og lambanýra (ég hefði verið til í að fá aðeins meira af nýrunum, þau voru verulega góð), síðan epla- og kampavínshlaup, sem mér fannst eiginlega eftirminnilegasti rétturinn, og vanilluskyrfrauð með berjum. Svo var endað á kaffi og konfekti frá Hafliða í Mosfellsbakaríi.

Þetta var skemmtilegt kvöld og góð tilbreyting frá stressinu undanfarna daga – reyndar líka tilbreyting frá matseðlinum því að mér hafði ekki gefist tími til að borða kvöldmat næstu tvo daga á undan vegna vinnu við Gestgjafavefinn (ekki þar fyrir, lambakjötssmáréttirnir frá Skútunni, sem voru á boðstólum við opnun vefsins, stóðu fullkomlega fyrir sínu og ég var svosem ekki kvöldmatarþurfi eftir þær trakteringar). Þessi gourmet-veisla var því frábær endapunktur á það allt saman. Ólafur Ragnar, sem einmitt opnaði Gestgjafavefinn daginn áður, var heiðursgestur þarna ásamt Dorrit og frú Vigdísi og þegar mér var vísað til sætis við háborðið með þeim var ég að hugsa um að segja við Ólaf ,,við verðum að fara að hætta að hittast svona“ – en ég hætti nú við það …

Nanna er einnig með bloggsíðu: www.nannar.blogspot.com

Mynd: Nanna Rögnvalds / www.gestgjafinn.is

 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið