Vertu memm

Hinrik Carl Ellertsson

Hvaða hníf myndir þú kaupa þér?

Birting:

þann

Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumeistari

Pistlahöfundur er Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumeistari

Þetta er spurning sem ég hef fengið mjög oft í gegnum tíðina.  Og satt best að segja þá veit ég ekki hverju er rétt að svara, því það sem gæti hentað mér, hentar þér kannski alls ekki.

Það er margt sem þarf að huga að þegar hinn fullkomni hnífur er valinn.  Lögun, stál, í hvað á að nota hann, viltu að hann endist lengi og ertu þá tilbúin að borga fyrir það eða viltu frekar endurnýja á nokkurra ára fresti og taka ódýrari kostinn.

Fyrir mér er hin fullkomna lögun japanski kokkahnífurinn en það er bara það sem mér finnst. Ég vann eitt sinn með kokk sem notaði bara 28 cm sveðjuna sína í allt en þetta er líka það sem fólk venur sig á.

Ég fór á stúfana og ræddi við nokkur umboð sem eru að bjóða upp á hnífa í háum gæðaflokki hérna á Íslandi og fékk nokkra hnífa frá þeim.  En ég vissi það að nota hníf í 1-2 vikur hefði lítið að segja því flest allir hnífar eru frábærir til að byrja með. Til að fá sem bestu niðurstöðu erum við búin að vera nota þessa hnífa í eitt og hálft ár til að sjá hver endist best og hver heldur biti lengst og hverjir eru alls ekki að gera sig.

Eitt sem skiptir mig höfuðmáli þegar ég er að velja mér hníf er hvernig hann er balanseraður. Það er að segja hvernig hann liggur í hendinni, er hann of þungur þannig ég verði of fljótt þreyttur í hendinni, eða er hann hreinlega of léttur sem myndi valda því að ég þarf að nota meira afl til að komast í gegnum hluti sem á endanum veldur því að ég fer að beita mér rangt.

Svo er það að viðhalda bitinu. Við gerð þessarar tilraunar tókum við og stáluðum hnífana á hverjum degi létt og svo var lagt á þá með 1000/3000 steini einu sinni í mánuði.  Þetta var gert til að þeir fengju sem jöfnustu notkunina. Hver og einn kokkur var svo látinn skipta á mánaðarfresti um hníf til að allir myndu rúlla í gegnum alla hnífana.  Við fengum hnífa frá Versluninni Kokku sem er með Alpha hnífa, svo var það Pro Gastro sem hefur umboðið meðal annars fyrir Shun og Masahiro og að lokum Fastus sem er með Yaxell og MAC.  Í grunninn eru þetta allt alhliða kokkahnífar “chefs knife “

Hér kemur dómur um hvert og eitt merki fyrir sig.

MAC

MAC

MAC

Hérna er á ferðinni flottur byrjenda hnífur. Er í verðflokki sem er aðeins lægri en flestir af þessum hnífum sem við prófuðum en stendur vel fyrir því. Hann virkar vel og skilar alltaf sínu. Er ekki með neina óþarfa töffarastæla í blaði eða merkingum.  Skaftið er hugsanlega það eina sem ég myndi setja út á því það fellur illa að hendi en frábær hnífur til að byrja námið eða til að nota heima.

Kai Shun

Kai Shun

Kai Shun

Þéttir, góðir og vandaðir hnífar er það sem stendur upp úr. Þeir eru með mjög breiða línu frá sér allt frá heimiliskokkinum upp í Masterchefinn.  Mjög vel balanseraður og gott að halda á honum því skaftið fellur vel í hönd. Þú getur stjórnað verðinu svolítið sjálfur því þeir hafa gott úrval. Helsta sem ég myndi setja út á er að hann heldur bitinu frekar stutt en auðvelt er að ná því upp aftur með eðlilegu viðhaldi.

Alpha

Alpha

Alpha

Massívur, er það sem ég hugsa. Mjög þungur og eiginlega of þungur hnífur. Verður mjög fljótt þreyttur á að vinna með hann en mjög beittur engu að síður. Heldur biti vel en aðeins erfitt að vinna það aftur tilbaka. Eru með flotta línu og fiskihnífurinn frá þeim er frábær. Hnífar fyrir lengra komna sökum þyngdar.

Masahiro

Masahiro

Masahiro

Hnífar sem flestir kokkar Íslandi velja sér sem sinn hníf. Hefur virkað vel í gegnum árin. Vefst fyrir sumum að viðhalda biti sökum þess að það er bara egg öðru megin. Einnig eru margir þeirra ekki ryðfríir sem getur orsakað það að það fellur á þá.  Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af þeim og þeir hafa reynst mér mjög vel. Mjög stór lína frá þeim en verðið í hærri kantinum, sem má auðvitað sökum mikilla gæða, þeir eru sanngjarnir í verði. Þetta er sá hnífur sem ég hef notað lengst á mínum ferli og alltaf komið mér þangað sem ég hef þurft að komast. Mjög vel balanseraður og fellur vel í hendi. Yfirhöfuð frábærir hnífar sem allir ættu að eiga í sinni tösku.

Yaxell

Yaxell

Yaxell

Fágun er það sem mig langar að segja. Þessir hnífar byrjuðu að koma til landsins fyrir nokkrum árum og náðu mér alveg um leið. Þeir eru með 3 línur frá sér sem eru allt frá heimilskokkinum upp í skurðlækninn næstum því. Þeir halda vel biti en eina sem ég gæti sett út á þá er að það getur verið erfitt að ná því aftur í þá. Þessir hnífar eru eitthvað sem allir kokkar þurfa að prófa að minnsta kosti einu sinni. 161 blaða línan þeirra eru þeir bestu hnífar sem eru til á markaðinum í dag en það þarf líka að borga vel fyrir þá. Það voru flestir sammála um að þessir hnífar hefðu skarað framúr.

 

Hinrik er matreiðslumeistari að mennt. Útskrifaðist með sveinspróf árið 2006 og sem matreiðslumeistari árið 2012. Var í U-23 ára kokklandsliðinu. Hefur farið víða þrátt fyrir ungan aldur, m.a. sem yfirmatreiðslumeistari á Radisson Blu Caledonian og Hótel Varmahlíð. Eyddi þremur vikum á The Fat Duck sumarið 2012. Hefur staðið fyrir grillnámskeiðum ofl. Greinahöfundur hjá Gestgjafanum síðan 2012. Hægt er að hafa samband við Hinrik á netfangið [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið