Vertu memm

Greinasafn

Hristan en ekki hrærðan

Birting:

þann

Ofurnjósnarinn James Bond nýtur gríðarlegra vinsælda meðal bíógesta heimsins og sennilega eru margir farnir að halda að hann sé raunveruleg persóna. Eitt af því sem einkennir Bond er góður smekkur á konur og vín og í þessari grein verður athyglinni sérstaklega beint að eftirlætisdrykk hans sem skal vera hristur en ekki hrærður.

„Hristan, ekki hrærðan.“ Þetta er ein frægasta lína þekktasta njósnara kvikmyndasögunnar, James Bond. Hitt svarið sem allir þekkja er það sem töffarinn gefur alltaf þegar hann er spurður að nafni: „Bond, James Bond.“

Þegar bíófíklar heyra beðið um martinikokkteil, hristan en ekki hrærðan, sjá þeir Sean Connery eða Pierce Brosnan fyrir sér í smóking á barnum að fá sér hestaskál, rétt áður en einhver íðilfagur kvenkyns gagnnjósnari er tekinn til kostanna.

En hvað er svona merkilegt við martini-kokkteil og af hverju skiptir svona miklu máli að hann sé hristur en ekki hrærður? Hér er ekki allt sem sýnist því martini-kokkteill Bonds er ekki beinlínis hefðbundinn frekar en margt annað við hetjuna.

Þessi frægi kokkteill hefur fylgt Bond eins og vörumerki í gegnum allar myndir hans. Höfundurinn Ian Fleming er augljóslega alinn upp við þá venju að þegar klukkan er orðin fimm á daginn fái menn sér hiklaust sterkan fordrykk áður en þeir skipta um föt fyrir matinn.

Þetta hefur alltaf haldist þótt græjurnar og bílarnir verði stöðugt ævintýralegri, stúlkurnar íturvaxnari og tökustaðirnir framandlegri eins og nýjasta myndin um Bond ber með sér en hún gerist að nokkurra sekúndna hluta á Íslandi.

Hin eina sanna uppskrift

Í fyrstu bók Ians Flemings um Bond er því lýst í smáatriðum hvernig drykkurinn skal vera og segir þar í sjöunda kafla:
„Ég vil fá þurran martini,“ sagði hann, „í djúpu kampavínsglasi.“
„Oui, monsieur.“
„Bíddu aðeins. Það eiga að vera þrír sjússar af Gordon’s gini, einn af vodka og hálfur af Kina Lillet. Hristu þangað til blandan er vel köld og bættu þá við stórri sneið af sítrónuberki.“

Bond kallar þennan drykk Vesper í höfuðið á ægifögrum gagnnjósnara sem hann á í höggi við í sömu bók. Rétt er að skýra út að Kina Lillet er ákveðin tegund af vermóð.

Réttur martini

Í öðrum Bond-bókum biður hann stundum um miðlungsþurran vodka martini sem þýðir þá væntanlega að jöfn hlutföll skuli nota af vodka og gini. Ekki er tekið fram í öllum bókunum um Bond að kokkteillinn skuli vera hristur en ekki hrærður en það er þó gert víðast hvar.

Hefðbundinn martini-kokkteill er blandaður úr gini og þurrum vermóð og annað hvort ólífu eða sítrónuberki bætt í en ólífuútgáfan er mun algengari. Stundum er þurrt hvítvín notað í staðinn fyrir vermóðinn en það sem skiptir miklu máli hér er að hefðbundinn martini-kokkteill er aldrei hristur, alltaf hrærður. Algengustu hlutföllin eru tveir ginsnafsar á móti einum vermóð.

Að hrista eða hræra, þarna er efinn..

Þeir sem unna kokkteilum af þessu tagi skiptast í tvo hópa og er önnur fylkingin hreintrúarmenn sem myndu aldrei leyfa vodkatári að læðast í ginkokkteil undir nokkrum kringumstæðum og svo eru hinir sem eru frjálslyndari. Báðar fylkingar eru þó sammála um að mikill munur er á hristum og hrærðum martíni.

Í fyrsta lagi er hristur kokkteill alltaf mun kaldari en sá hrærði, því ísmolarnir fá tækifæri til að vinna sitt verk í hristaranum. Í öðru lagi kemst loft í blönduna þegar hún er hrist og hreintrúarmenn telja að slíkt spilli bragðinu af gininu og geri kokkteilinn of bitran á bragðið. Í þriðja lagi blandast vermóðurinn mun betur saman við ginið í hristum kokkteil og dregur úr olíukenndum keim sem sumum finnst vera af vermóð í kokkteilum.

Þegar vodka er sett í martini-kokkteil er mjög mikilvægt að drykkurinn sé kaldur, því annars verður kokkteillinn á bragðið eins og kveikjarabensín. Því kaldari sem drykkurinn er, því meira hverfur vodkabragðið. Þarna er kominn skýringin á því hvers vegna Bond lætur alltaf hrista kokkteilinn. Honum finnst vodkabragðið vont. Vanir gindrykkjumenn myndu ráðleggja honum að snúa sér alfarið að hefðbundnum martini og njóta mýktar ginsins í bland við sætt bragðið af vermóð og hinn salta undirtón ólífunnar.

Drekkur ekki heilsunnar vegna

Sú skýring hefur verið sett fram að hristur kokkteill auki andoxunaráhrif alkóhóls og þess vegna sé hristur kokkteill með einhverjum hætti hollari en hrærður. Það má fullyrða að Bond drekki ekki martini heilsu sinnar vegna frekar en aðrir sem það gera. Hafi drykkjumenn áhyggjur af heilsu sinni ættu þeir frekar að drekka gulrótarsafa en kokkteilblöndur eins og þessa.

Hér mætti einnig setja upp raunsæisgleraugun og benda íslandsvininum Bond á að miðað við hans leiftursnöggu viðbrögð er öll þessi drykkja ekki sérstaklega sennileg. Rannsóknir hafa sýnt að jafnvel eitt glas af sterkum kokkteil eins og þeim sem Bond sýpur í tíma og ótíma draga mælanlega úr viðbragðsflýti manna. En við erum ekkert að pæla í raunsæi hérna.

Blindpróf hafa leitt í ljós að jafnvel óvanir martinidrykkjumenn eiga auðvelt með að þekkja hristan martini frá hrærðum. Það skýrist fyrst og fremst af kuldanum og áhrifunum á ginbragðið.

Að lokum má geta þess að því minni vermóður sem er í hefðbundnum martini-kokkteil, því sterkari verður hann og virkar hraðar á þann sem drekkur. Í hálfkæringi er mönnum því ráðlagt að þegar blanda skuli reglulega hressandi martini-kokkteil sé nóg að setja ginið í glasið með ólífunni og taka síðan glasið með kokkteilnum og sýna því vermóðflöskuna. Síðan skal hræra varlega og drekka. Endurtakist eftir þörfum.

Greint frá á www.dv.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss
Click to comment

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið