Vertu memm

Freisting

Hótar málsókn verði ekkert að gert varðandi Langa Manga á Ísafirði

Birting:

þann

Kvartanir hafa borist vegna veitingastaðarins Langa MangaÁ fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í gær var lagt fram nýtt bréf frá Erlingi Tryggvasyni, sem skrifar fyrir hönd íbúa við Aðalstræti, þar sem hann gerir grein fyrir ónæði af veitinga- og skemmtistaðnum Langa Manga við Aðalstræti 22. Segir í bréfinu að ekki sé lengur hægt að búa við ástandið, að liðlega fjórir mánuðir séu liðnir frá því að fyrst var rætt við bæjarstjóra en enn hafi ekkert gerst. Þá segir að við óbreytt ástand verðfalli íbúðir í nágrenni við Langa Manga þar sem að ekki fáist svefnfriður fyrir hávaðanum. Einnig kemur fram að bréfritari telji ekki að hægt sé að mæla hávaða í íbúðum í nágrenninu við hæsta mögulega hávaðastig, líkt og eigi að gera, nema með sviðsetningu. Þá óskar bréfritari eftir skriflegri útfærslu á þeirri aðgerð, hvað hún eigi að kosta og hver eigi að borga. Segir svo að að mati íbúa við Aðalstræti sé eldvörnum í Aðalstræti 22 ábótavant. Þá hótar bréfritari málsókn á hendur bænum, verði ekkert að gert.

Bréfið fer orðrétt hér á eftir:

„Þar sem komið er að endurnýjun á vín- og skemmtanaleyfi ásamt öðrum leyfum fyrir veitingastaðinn Langa Manga förum við íbúar við Aðalstræti fram á að bæjarráð endurskoði ákvörðun sína um þennan rekstur þar sem þið eruð umsagnaraðilar og veitið vínveitingaleyfi.

Við íbúar höfum sent bæjaryfirvöldum tvö bréf (31. október 2005 og 12. desember 2005), engin breyting hefur verið gerð af ykkar hálfu.

Við þetta er ekki hægt að búa lengur, liðlega 4 mánuðir eru liðnir frá því að byrjað var að tala við bæjarstjóra, fyrst munnlega og síðan skriflega en ekkert gerist.

Við teljum að verið sé að brjóta á okkur lög um fjöleignahús og lögreglusamþykkt Ísafjarðarbæjar. Ef bæjaryfirvöld aðhafast ekkert í málinu sjáum við okkur ekki annað fært en að höfða mál á hendur Ísafjarðarbæ.

Með óbreyttum rekstri er verið að verðfella allar íbúðareignir í nágrenni við staðinn, þar sem hávaðinn frá skemmtistaðnum og drukknu fólki er slíkur að ekki er svefnfriður.

Ekki er hægt að hafa glugga opna að baka til við Aðalstræti 24 þegar logn er og verið er að elda og reykja á skemmtistaðnum vegna lyktar frá útblæstri staðarins, heilbrigðiseftirlit hefur sagt að leiða eigi útblástur staðarins upp fyrir þakbrún en ekki beint út úr vegg eins og það er nú, þetta atriði hafi yfirsést við úttekt á staðnum. […]

Heilbrigðiseftirlit hefur tilkynnt að þeir eiga að mæla hávaða í íbúðum og inn á staðnum við mesta framkvæmanlega hávaðastig. Þetta teljum við ekki vera framkvæmanlegt nema með sviðsetningu. Óskað er eftir skriflegri útfærslu á þeirri aðgerð, hvað hún eigi að kosta og hver á að borga. Hvernig á að mæla hávaða frá drukknu fólki fyrir utan staðinn um nætur? Hver á að sjá um þrif á gangstéttum og götum eftir skemmtanahald?

Skemmtanahaldari hefur sagt það í bréfi til sýslumanns og bæjarráðs að það sé í verkahring bæjarins, er það svo? […]

Í áðurnefndu bréfi skemmtanahaldara Langa Manga segir hann Aðalstræti 22 ekki vera fjöleignahús þar sem ekki er um sama hús að ræða og því geti lengjan frá Gamla Bakaríinu að ÁTVR ekki flokkast undir fjöleignahús.

Í lögum um fjöleignahús segir:

1. kafli. Gildissvið, skilgreiningar o.fl.

Hugtakið fjöleignahús.

1.gr.

…Fjöleignahús telst í lögum þessum hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið allra og sumra.
4. Raðhús og önnur sambyggð og samtengd hús, bæði eingöngu til íbúðar og að einhverju leyti eða öllu til annarra nota, allt eftir því sem við getur átt.

Af þessu má dæma að hús við Aðalstræti 24 og hús við Aðalstræti 22 flokkast undir fjöleignahúsalög og ætti því að fara eftir þeim.

Í 74. gr. þar sem fjallað er um húsreglur stendur:

2. Bann við röskun á svefnfriði í húsinu a.m.k. frá miðnætti til kl.7 að morgni…

Þær fullyrðingar sem fram koma í bréfi frá skemmtanahaldara Langa Manga um að húsið teljist ekki fjöleignahús falla því um sjálfar sig.

Að okkar mati eru eldvarnir í húsi Aðalstræti 22 með öllu ófullnægjandi. Bent hefur verið á að íbúar á efri hæðum fyrir ofan skemmtistaðinn hafa aðeins eina útgönguleið og er það niður stigagang. Þar sem reykingar eru leyfðar inn á staðnum og notast er við djúpsteikingarpotta teljum við að ef upp kæmi eldur í húsinu (sem er timburhús) þá ætti fólk á efri hæðum erfitt með flótta ef stigagangur skyldi lokast og yrði fólkið því augljóslega í mikilli hættu. Þetta hefur slökkvistjóra, lögreglustjóra, bæjarstjóra, sýslumanni og nokkrum bæjarfulltrúum verið bent á en ekkert gerist.

Fjölda kvartana/hringinga ber ekki að öllu leyti saman, þar sem ekki allt hefur verið skráð, auk þess sem lögregla hefur verið upptekin í öðrum verkefnum. Eftir okkar bestu vitund eru komnar yfir 20 kvartanir vegna staðarins.

Eftirlit með vínveitingahúsum bæjarins virðist vera mjög ábótavant ef lesið er úr könnun sem Vá Vesthópurinn lét gera þar sem fram kemur að 14% ungmenna í 10. bekk grunnskóla segist hafa stundum eða oft drukkið áfengi á skemmtistað.

Það er ósk okkar íbúa við Aðalstræti sem sendu ykkur bréf þann 12. desember 2005 að mál þetta fái skjóta og málefnalega umfjöllun og við afgreiðslumálsins verði horft til þess að farið verði að lögum sem í gildi eru. Óskað er eftir að skriflegt svar verði sent til undirritaðs sem fyrst.“

Undir bréfið skrifar, fyrir hönd íbúa, Erlingur Tryggvason. Það skal tekið fram að úr bréfinu voru fjarlægðar vísanir í myndir sem bb.is hefur ekki undir höndum, og eru þeir staðir auðkenndir með [..]. Þá skal einnig tekið fram að tilvísanir í lagagreinar eru bréfritara.

Hópur íbúa á Ísafirði hefur barist fyrir því að opnunartími Langa Manga verði ekki styttur, og var áskorun þess efnis, með undirskriftum 831 bæjarbúa, var afhent sýslumanninum á Ísafirði og staðgengli bæjarstjóra á föstudag.

Greint frá á Vestfirska fréttavefnum bb.is

Mynd: bb.is

 

 

[email protected]

 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss
Click to comment

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið