Vertu memm

Sverrir Halldórsson

Hinsta kveðja: Sverrir Þór Halldórsson

Birting:

þann

Sverrir Þór Halldórsson matreiðslumeistari

Sverrir Þór Halldórsson matreiðslumeistari

Þau sorglegu tíðindi bárust þann 11. desember síðastliðinn, að einn úr hópi okkar fréttamanna, Sverrir Þór Halldórsson matreiðslumeistari, hefði látist á Borgarspítalanum.

Útförin sem var afar falleg og hjartnæm, fór fram að viðstöddu miklu fjölmenni í Fossvogskirkju, en Sverrir var jarðsunginn af séra Guðbjörgu Jóhannesdóttur. Sverrir var jarðsettur í Gufuneskirkjugarði.

Rúmlega 1200 fréttir og pistlar

Sverrir var öflugur penni og veitingarýnir og skrifaði yfir 1200 fréttir og pistla hér á veitingageirinn.is/freisting.is frá árinu 2007. Á gamla vefnum voru yfir 700 pistlar og fréttir birtar eftir Sverri.

Fyrsti pistillinn eftir hann birtist 6. mars 2007 og fjallaði um Ungkokka Íslands, en liðið keppti í keppninni The World Knorr Junior Culinary Grand Prix í Scot Hot.

Síðasti pistill Sverris fjallaði um eitt af mörgum ferðalaga hans en hann var ötull að ferðast út fyrir bæjarmörkin.

Hægt er að lesa allar fréttir og pistla frá Sverri með því að smella hér.

Þín verður sárt saknað kæri vinur. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Að lokum birtum við hér minningarorð sem birt voru í Morgunblaðinu frá þeim Sigurvini Gunnarssyni og Sigurði Einarssyni, Klúbbi Matreiðslumeistara og Sigurði L. Hall með góðfúslegu leyfi þeirra:

Minningargrein

Í dag kveðjum við Sverri Þór Halldórsson sem lagður er af stað í sína hinstu ferð. Kynni okkar hófust fyrir um 40 árum er hann hóf matreiðslunám á Hótel Sögu. Þetta hefur sjálfsagt verið rétta fagið fyrir hann því segja má að matur, og allt matartengt, hafi verið hans helsta áhugamál jafnt í starfi sem frístundum. Sverrir lifði fyrir mat og allt matartengt.

Að loknu námi lágu leiðir Sverris víða, fyrst á því merka hóteli Hótel Savoy í London og síðan til Danmerkur þar sem hann stundaði hótelnám í Álaborg, vann svo í Kaupmannahöfn um tíma áður en hann kom aftur heim og byrjaði aftur á Hótel Sögu þar sem hann naut sín vel. Nánari ferill hans verður ekki rakinn hér.

Kynni okkar og vinskapur entist til æviloka Sverris. Þær voru ófáar ferðirnar sem við fórun saman á hina ýmsu veitingastaði og hótel jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem út um landið og erlendis. Hann var fréttamaður á Veitingageiranum, fréttavef um mat og veitingar, og skrifaði þar veitingarýni. Það spunnust oft upp liflegar og áhugasamar umræður. Þótt við ræddum saman um upplifun okkar af þeim réttum sem við fengum hverju sinni og kryfðum til mergjar þá hafði hann lokaákvörðun um textann. Hann var alltaf fylginn sér og oft voru hin gastrómisku viðmið svo heilög fyrir honum að okkur féll oftar en ekki allur ketill í eld. Hann var „prinsip“ maður fram í fingurgóma og eftir hann liggja margar greinar um hinar ýmsu hliðar veitingamennsku. Hann var vel virtur fagmaður og starfaði mikið fyrir Félag Matreiðslumanna (Matvís) og Klúbb matreiðslumeistara. Einnig var hann alþjóðlegur dómari í matreiðslukeppnum, var um tíma í landsliði matreiðslumanna og tók þátt í alþjóðakeppnum.

Sem dæmi um mataráhuga hans þá fórum við einu sinni í dagsferð frá Prag til Vínarborgar til að borða þar Vienerschnitzel og koma svo við á Hótel Sacher til að fá ekta Sachertertu og aftur til Prag um kvöldið. Þetta þótti honum toppurinn. Svo var ekkert mál að skreppa til Kaupmannahafnar til að fara á danskt jólahlaðborð. Eitt sinn dvaldi hann á Landspítalanum. Eftir nokkra daga var honum farið að leiðast maturinn, hann hringdi þá á eitt besta hótel landsins og pantaði flottan kvöldmat. Yfirmatreiðslumeistarinn kom sjálfur með pöntunina til hans og sá um að allt væri samkvæmt bókinni.

Já, hinsta ferð Sverris er hafin. Við trúum því að hann sé búinn að koma sér fyrir í veitingasölum himnaföðursins og njóti sín vel. Með söknuði kveðjum við góðan vin. Hafðu þökk fyrir allt.

Aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Sigurður Einarsson
Sigurvin Gunnarsson

Minningargrein

Sverrir Þór Halldórsson er horfinn á braut. Hann hóf ungur að læra matreiðslu og gengdi síðan því starfi af lífi og sál. Leiðir hans lágu víða og hann var virtur fagmaður. Sverrir starfaði mikið að félagsmálum, var félagi í Klúbbi matreiðslumeistara og sinnti þar ýmsum krefjandi verkefnum sem hann leysti með glæsibrag. Hann var um tíma í landsliði íslenskra matreiðslumanna og tók þátt í alþjóðakeppnum. Einnig var hann alþjlóðlegur dómari í matreiðslukeppnum.

Klúbbur matreiðslumeistara þakkar fyrir góð kynni og óskar góðrar ferðar á vit nýrra ævintýra. Fjölskyldu hans sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Klúbbur matreiðslumeistara
Björn Bragi Bragason

Minningargrein

Það kemur manni ætíð á óvart þegar dánarfregn náins vinar og samferðarmanns birtist, jafnvel þótt innst inni sé maður viðbúin því að lokin séu nær. Sverrir Þór Halldórsson matreiðslumeistari lést þ. 11. desember. Við lærðum kokkinn saman á Hótel Sögu fyrir uþb. 40 árum síðan. Hótel Saga var á þeim tíma musteri íslenskrar matargerðarlistar og var allt í hæsta gæðaflokki. Eldhúsið var stórt og sinnti öllum sölum á mörgum hæðum hótelsins. Þar unnu fjöldi af kokkum, þjónum, lærlingum og smurbrauðsdömum og skapaðist glaðlegt líf á milli starfsfólksins. Við fíluðum okkur.

Sjéffarnir yfir kokkalærlingunum voru allir marglærðir og reyndir frá útlöndum og töluðu bæði dönsku og frönsku. Það þótti kostur í faginu og vildum við nemarnir ná því líka. Út skyldi haldið strax að námi loknu. Þannig vorum við Sverrir. Eftir námið þá fer Sverrir til London og starfaði á Hótel Savoy einu því allraflottasta í Evrópu þá. Síðan til København og starfaði hann þar á ýmsum veitingastöðum en heldur svo til Århus að stúdera frekari hótelfræði. Leiðir okkar lágu mikið saman þá, en ég bjó í skíðabænum Geilo í Noregi. Þar vann lítill hópur hótelfagfólks frá Íslandi. Sverrir kemur í heimsókn og um að gera að drífa hann á skíði. Hann var nú ekki á því fyrst enda alveg óvanur á skíðum.

Sverrir var ekki mikið í íþróttum yfirleitt. Upp í brekku er haldið og strax upp lyftustólinn í stærstu brekkuna en samt alls ekki þá bröttustu né hættulegustu. Þetta átti nú ekki að vera neitt mál bara að fara rólega í plóg og stuttar beygjur. Gekk það alveg frábærlega. Sverrir fer þetta með glans nema þegar farin er rúmlega hálf brekkan þá pomsar hann á rassinn! Eftir var nokkuð bein braut niður að kaffiteríu. Þeir sem þekktu Sverri vel vita að hann var nú frekar þungur til pundsins og þurfti tvo til að reisa hann við með sameiginlegu átaki. Komum honum á lappir og hann stendur keikur á skíðunum, nema að þau byrja að renna niður brekkuna með Sverri, baðandi út höndunum á fullu bruni. Þetta leit ekki vel út og sá maður að hann myndi rústa kaffiteríunni, borðum og gestum, eins og í James Bond mynd, nema þegar hann er kominn niður brekkuna þá tekst honum á einhvern lofaðan hátt að taka þetta fína beygjuskrens og stoppa standandi eins og alvanur keppnismaður. Svipurinn á mínum manni var flottur þegar við komum að honum, gleðiglottið sem við þekktum svo vel á Sverri. „Skíði ekki málið“ en það þýddi ekki að ræða um aðra ferð. Margar góðar sögur eru til af Sverri og tiktúrum hans. Allar góðlátlegar og skemmtilegar í hans stíl.

Hann var sérstakur karakter og engum líkur. Hann var skapgóður, sæll og hló mikið. Hann fór samt sínar eigin leiðir. Þrátt fyrir veikindi sín hélt hann sig alltaf við fagið, skrifaði um og dæmdi veitingastaði á sinn hátt. Hann var einnig í því að pirra unga matreiðslumenn er voru að tvista fagmennskuna. Matreiðslan skyldi rétt gerð og fagorðin kórrétt. Var það ávallt skemmtilestur, margt vel sagt og rétt.

Ég hitti hann síðast í sumar og sá þá að mátturinn var að dvína. Sögurnar um Sverri lifa áfram í minningunum. Farvel min ven.

Sigurður Lárus Hall.

Veitingageirinn.is - Fréttavefur um mat og vín. Netfang: [email protected]

Lesa meira
Auglýsingapláss

Sverrir Halldórsson

Suðurströndin | Fyrri hluti | Veitingarýni: Hendur í Höfn og Tryggvaskáli

Birting:

þann

Hendur í Höfn - Dagný Magnúsdóttir

Hendur í Höfn – Dagný Magnúsdóttir

Þá erum við lagðir af stað í enn eina bununa út fyrir bæjarmörkin og nú skyldi beina athyglinni að suðurströndinni og fyrsti staðurinn var Þorlákshöfn.

Þar er lítið leyndamál sem stofnað var 3. júni 2010, og heitir því frumlega nafni Hendur í Höfn og er Dagný Magnúsdottir eigandi staðarins. Dagný er ekki menntuð í eldamennsku, en með óbilandi áhuga sem sennilega reis og þróaðist sökum þess að matarofnæmi hefur háð fjölskyldunni.

Hendur í Höfn

En uppistaða í vinnu hennar er listsköpun og námskeiðshald á þeim vængi, en fellur vel að vera með lítið gallery og kaffihús tengt hvort öðru.

Hér ætlum við að huga að kaffihúsinu, þar er allur matur glútenfrír og lagaður frá grunni og engin auka,- eða hjálparefni notuð í matargerðinni.

Hún er í samvinnu við fiskvinnslufyrirtæki í þorpinu og fær úrvalshráefni hjá þeim og á móti koma þeir með erlenda kaupendur og smakka á vörunum sem þeir hafa hug á að kaupa, komna í góðan rétt með grænmeti sósu og öðru passandi meðlæti og óhætt að segja að þetta samstarf er beggja hagur og helst alla leið á staðnum.

Hendur í Höfn

Heimabakað brauð

Við fengum fyrst heimabakað brauð með þeyttu smjöri, fersku basilpesto og pesto úr rauðri papriku og bragðið það var alveg magnað og gaf góð fyrirheit um það sem koma skyldi.

Svo kom:

Hendur í Höfn

Humarsúpa með heysátu af humri í miðjunni og súpunni hellt yfir

Hendur í Höfn

Humarsúpa með heysátu af humri í miðjunni og súpunni hellt yfir

Löguð á staðnum frá grunni og eftir 2- 3 skeiðar horfðu við á hvorn annan gersamlega orðlausir yfir því kröftuga, dýrlega og hreina humarbragð sem var af súpunni. Einnig var fullkomin eldun á humrinuum, þessi réttur algjör snilld og þess virði að keyra til Þorlákshafnar til að njóta.

Hendur í Höfn

Kökur

Á eftir fengum við að smakka á 3 tegundum af kökum, þar af ein osta og var þar alveg það sama upp á teninginn, hreint bragð og svakalega góð og þó svo að það séu lagaðar á sérmáta þá fannst það ekki á bragðinu.

Það er virkilega gaman að upplifa aðila sem eldar mat af köllun og eru ekki að nota einhverjar flýtileiðir, enda uppsker hún samkvæmt því.

Kvöddum við Dagnýju með trega, við vorum alveg til í að vera kostgangarar hjá henni.

Héldum leið okkar áfram en næsti staður var Hveragerði, en þar tókum við hús á Eyjólfi K. Kolbeins yfirmatreiðslumeistara hjá Dvalarheimilinu Ási og áttum gott spjall við hann, síðan lá leiðin á Selfoss.

Þar vorum við með bókaða eina nótt á Selfoss Hostel á Austurvegi ( gömlu Ljósheimar) og fengum við herbergi í kjallaranum, ég lagði mig en Venni fór smá túr um plássið.

Klukkan 18:00 vorum við mættir í Tryggvaskála við Ölfusárbrú en þar skyldi kvöldverður snæddur.

Komum inn og okkur vísað á borð, drykkjarpöntun tekin og sannmælst um að eldhúsið myndi sjá um matinn og kom eftirfarandi:

Tryggvaskáli

Humarsúpa Tryggvaskála
Koníak, sultaður tómatur

Mikil vinna lögð í súpuna og bragðgóð en eldpipar finnst mér ekki eins góður og gott leturhumarbragð.

Tryggvaskáli

Glóðaður bláugga túnfiskur
Brenndur blaðlaukur, sinnepsmajó, stökkur hvítlaukur, herslihnetu-sellery relish

Skemmtileg samsetning á bragði sem tónuðu vel upp á móti hvort öðru, laukurinn flottur.

Tryggvaskáli

Hægeldaður Lax
Bankabygg frá Ólafi Eggertssyni á Þorvaldseyri, spergilkál, eldpiparsteikt brauð, ljótur og bláberjatónað karamellusmjör

Frábær eldun á fiski, bankabyggið kom vel út sem og osturinn og smjörið, en þetta daufa bragð leið svolítið fyrir eldpiparinn.

Tryggvaskáli

Lambafillet úr Flóanum með dill- spínatmauki
Dill – spínatmauk, ísbúa kartöflukaka, lambarillet og blóbergssoðgljái

Mjög flott eldun á kjötinu, safaríkt, mjúkt og harmonían í bragði til fyrirmyndar.

Tryggvaskáli

Hunang og kamilla
Hunangsís, herslihnetucrumble, sítrónukrem og kamillu svampur

Mjög góður ís og góður samleikur, svampurinn var skemmtileg nýlunda og góð.

Yndisleg máltíð í fallegu umhverfi, en leið mest fyrir hálfbágborna þjónustu, þökkuðum fyrir okkur og héldum til koju.

 

 

Lesa meira

Sverrir Halldórsson

Marriott kaupir Starwood Hotels

Birting:

þann

Marriott hótelkeðjan

Marriott hótelkeðjan ætlar að kaupa Starwood keðjuna og úr því verður stærsta hótelkeðja heims. Kaupverðið er 12,2 milljarðar dollara, eða sem jafngildir 1.598 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. Hörpuhótelið verður rekið undir merkjum Marriott og Starwood hefur sýnt hóteluppbyggingu á Íslandi áhuga.

Sameinuð hótelkeðja mun samtals stjórna 5.500 hótelum með 1,1 milljónum herbergja í 100 löndum. Reiknað er með að samruninn gangi í gegn á miðju næsta ári.

Undir hatti Starwood eru m.a. hótelið St. Regis, W Hotels, Westin og Sheraton. Tilkynnt var um kaupin nú á dögunum en þau hafa átt sér nokkurn aðdraganda þar sem stjórnarformaður Starwood sagði í apríl að stjórnendur væru að skoða nýja möguleika varðandi fjármögnun og skipulagningu.

Þrjú kínversk fyrirtækið hafa verið á eftir Stawood; Jiang International Hotels, sovereign wealth fund China Investment Group og HNA Group, auk þess hefur Hyatt hótelkeðjan einnig sýnt áhuga.

 

Greint frá á mbl.is

 

Lesa meira

Sverrir Halldórsson

Neytendastofa sektar Íslenskt meðlæti

Birting:

þann

Grænmeti

Árið 2009 tók Neytendastofa ákvörðun um að Eggert Kristjánsson hf. hafi brotið gegn góðum viðskiptaháttum með því að veita neytendum villandi upplýsingar um uppruna frosins grænmetis sem selt er undir vörumerkinu Íslenskt meðlæti. Í kjölfar ákvörðunarinnar var bætt við upplýsingum á umbúðum vörunnar um uppruna hennar og var afskiptum Neytendastofu af málinu þar með lokið.

Í ágúst s.l. barst stofnuninni ábending þar sem fram kom að upplýsingar um upprunamerkingar vantaði á umbúðirnar. Nú hefur Neytendastofa því sektað Eggert Kristjánsson um 500.000 kr. fyrir brot gegn ákvörðun Neytendastofu.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

 

Myndin tengist fréttinni ekki beint: úr safni

Lesa meira

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:

Mest lesið