Vertu memm

Uppskriftir

Girnilegur Piccata kjúklingur með ljúffengu pasta og lúxus tricolore salati

Birting:

þann

Piccata kjúklingur með ljúffengu pasta og lúxus tricolore salati

Piccata kjúklingur með ljúffengu pasta og lúxus tricolore salati

Það spannst talsverð umræða í dag um hvaða kjúklingarétt ætti að elda í kvöld. Ég stakk upp á Kjúkling Parmigiano – en Snædís var ekki spennt. Vilhjálmur stakk upp á þessum rétti og ég varð að játa að ég hafði aldrei heyrt hann nefndan. Og er ég þó nokkuð lesinn í ítölskum réttum.

En það er gaman að láta koma sér á óvart – og eftir smá lestur varð þessi réttur til. Ég beygði aðeins frá uppskriftinni sem oftast var að finna á netinu og bætti smá lauk, hvítlauk og rjóma saman við það sem ég hafði kynnt mér um daginn.

Og úr varð þessi uppskrift.

4 kjúklingabringur
4 msk hveiti
2 tsk Ítalinn, pizzakrydd frá Kryddhúsinu og grgs.is
salt og pipar
50 g smjör til steikingar
góð jómfrúarolía til steikingar

Fyrir sósuna

1/2 gulur laukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
jómfrúarolía
3 msk kapers
safi úr einni sítrónu
handfylli steinselja
100 ml gott hvítvín
200 ml rjómi
salt og pipar

Rustichella D’Abruzzo spaghetti
30 g smjör
sítrónuólía frá Olio Principe

Salatið

1 buffalo mozzarella
6 piccolotómatar frá Friðheimum
1 msk ferskt basil (sem við fengum að gjöf frá Helenu í Friðheimum)
salatlauf
olía
góð balsamic olía
salt og pipar

Piccata kjúklingur með ljúffengu pasta og lúxus tricolore salati

Aðferð

Byrjið á því að bragðbæta hveitið með kryddinu (þ.m.t. salti og pipar).

Blandið vel saman og hjúpið kjúklinginn rækilega.

Bræðið smjör á pönnu og bætið olíunni saman við og steikið kjúklinginn að utan. Setjið svo í eldfast mót og haldið heitu í ofni.

Sneiðið laukinn, hvítlaukinn og steikið úr smjöri og olíu þangað til mjúkur. Bætið svo hvítvíni á pönnuna og sjóðið niður.

Bætið næst kapers, sítrónusafa og sjóðið í tvær mínútur.

Svo rjóma – og sjóðið í fimm mínútur.

Bætið svo handfylli af steinselju saman við. Kúfaðri handfylli!

Notið gott pasta. Það breytir öllu!

Á meðan sósugerðin stendur yfir – sjóðið pastað í ríkulega söltuðu vatni, nógu af vatni. Ég er með 8 l pott sem ég fylli. Salta með fullt af salti – tvö grömm fyrir lítra af vatni.

Þegar kjúklingur er eldaður í gegn er honum bætt saman við sósuna. Skreytt með steinselju og sítrónusneiðum raðað með.

Með matnum bárum við fram klassískt salat – tricolore. Fann buffalo mozzarella í búðinni og lagði á beð af fersku salati ásamt piccolo tómötum og fersku basil. Nóg af jómfrúarolíu, ljúffengri balsamic olíu, salti og pipar.

Svo er bara að raða á disk.

Með matnum nutum við Piccini Memoro – sem er blanda af fjórum þrúgum frá Ítalíu. Þetta vín er ljúffengt, bragðríkt og með mjúkt eftirbragð. Og er líka ljúft fyrir budduna.

Bon appetito!

Myndir og höfundur: Ragnar Freyr Ingvarsson, einnig þekktur sem Læknirinn í eldhúsinu.

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið