Vertu memm

Pistlar

„Fyllerí“ án timburmanna?

Birting:

þann

Timburmenn

Einhver þarf að borga brúsann

Eitt megineðli viðskipta og forsenda fyrir þeirri staðreynd að þau geta borið fjárhagslegan árangur fyrir þann sem í þeim stendur, er að þau eru áhættusöm. Áhætta þessi er leidd af því að í hverfulum heimi eru aðeins takmörkuð gæði og áhætta þessi leiðir til þess að aðilar í viðskiptum taka vel ígrundaðar ákvarðanir og leggja sig fram við að stunda vönduð viðskipti.

Áhættulausum viðskiptum mætti í raun líkja við ,,fyllerís“ án timburmanna. Málið með viðskiptin er hins vegar að einhver þarf alltaf að borga brúsann, drykkjumaðurinn kemur ekki timburmönnunum yfir á aðra, þótt hann eflaust oft óski þess.

Of mikið hefur verið um það á undanförnum árum að aðilar í viðskiptum hafa talið sig getað stundað áhættulaus viðskipti með því að misnota þann ramma og félagaform sem löggjafinn hefur útbúið utan um hefðbundinn fyrirtækjarekstur. Það er hið svokallaða einkahlutafélagaform (ehf.), sbr. lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Markmiðið með þessum pistli er að fara í örstuttu og einfölduðu máli yfir lagalegu hlið málsins að viðbættum örfáum siðferðilegum sjónarmiðum og í kjölfarið koma með einfaldar tillögur að úrbótum.

,,Hver ber ábyrgð á þessu barni?“

Hugsanlegt er að einhverjir hafa lagt aðeins of bókstaflega túlkun í upphafsorð laga um einkahlutafélög en þar segir skýrlega að ,,einkahlutafélag [sé] félag […] þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins.“ Markmiðið með þessari reglu verður að ætla að hafi verið að greiða fyrir viðskiptum og gera hið stofnaða félag að lögaðila sem nýtur rétthæfis, þ.e. ber réttindi og skyldur til jafns við aðra aðila í landinu að mestu leyti, þar á meðal Jón og Gunnu í næsta húsi. Einkahlutafélag ber nafn, greiðir sína eigin skatta, getur verið skaðabótaskylt og m.a.s. brotið gegn sérrefsilögum, þó svo að eðli málsins samkvæmt geti það ekki verið dæmt til fangelsisrefsingar. Ef til vill er það ágætt í ljósi núverandi aðstæðna hér á landi í fangelsismálum án þess að farið sé frekar út í þá sálma.

Með öðrum orðum þá má kannski segja að einkahlutafélag sé eins og nýfætt barn, það gerir voða lítið nema fyrir tilstilli eigendanna. Að mati þess er þetta ritar bera eigendur einkahlutafélags samt sem áður sams konar ábyrgð og foreldrar barna – misgjörðir ,,óvitans“ eiga að skrifast á forsvarsmennina.

Getur hver sem er stofnað einkahlutafélag?

Svarið í langflestum tilfellum er já. Raunin er sú að kennitöluflakk er alltof algengt í íslensku fyrirtækjaumhverfi. Nefnd lög um einkahlutafélög gáfu mönnum frelsi sem í mörgum tilfellum hefur verið gróflega misnotað.

Efnisleg skilyrði fyrir stofnun einkahlutafélags eru í mjög einfölduðu máli þau að til staðar sé lágmarks hlutafé að upphæð kr.- 500.000. Jafnframt eru gerð þau skilyrði í 3. gr. laganna til stofnanda/stofnenda að þeir hafi ekki persónulega orðið gjaldþrota eða séu í gjaldþrotameðferð. Þau hæfisskilyrði eru svo gerð til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra einkahlutafélags að þeir séu ,,lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld,“ sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um einkahlutafélög.

Eins og sjá má eru skilyrði fyrir stofnun og stjórnun einkahlutafélags ekki ströng. Hefur það leitt til þess að mis vandaðir einstaklingar hafa tekið upp á því að stofna einkahlutafélög og hafa í krafti þess farið gáleysislega með pyngju félagsins, eyðilagt félagið á mettíma, skilið kröfuhafa eftir með sárt ennið sem í mörgum tilfellum leiðir til ruðningsáhrifa sem verst koma svo niður á heiðarlegum og ábyrgum einkahlutafélögum. ,,Gerendurnir“ hafa svo í of mörgum tilfellum látið félagið fara í gjaldþrotaskipti, keyrt einn hring um hverfið og komið svo aftur til sýslumanns og skráð nýtt einkahlutafélag til að fara með það sömu leið.

Hvað er til ráða?

Áður en vikið verður að mögulegum lagalegum úrbótum er auðvitað til einföld lausn á þessu sem felst í því að aðilar hugsi sig tvisvar um áður en stofnað er til áhættusamra viðskipta án raunverulegra greiðslutrygginga. Of stórt skref í þessa áttina getur hins vegar verið viðskiptalífinu hamlandi og leitt til þess að skaðlegi minnihlutinn skemmi fyrir gagnlega meirihlutanum. Leggur auðmjúkur undirritaður því fram hugmynd að eftirfarandi tillögum:

  • Hert verði á nefndu skilyrði laga um einkahlutafélög þannig að stjórnarmenn og/eða framkvæmdastjórar nýstofnaðs einkahlutafélags mega ekki hafa verið í sömu stöðu í öðru félagi sem tekið var til gjaldþrotaskipta þrjú undanfarin ár.

  • Séu aðilar meirihlutaeigendur í tveimur eða fleiri einkahlutafélögum og eitt þeirra fer í gjaldþrot, færist hin fjárhagslega ábyrgð yfir á hin félögin, a.m.k. að því leyti sem reksturinn er tengdur.

  • Opinber eftirlitsaðili, s.s. Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með hvort að einkahlutafélög hafi skipað stjórnarmann og/eða framkvæmdarstjóra til málamynda.

Ofangreindar tillögur sem verða að teljast hóflegar, myndu vonandi leiða til þess að aðilar sæju í færri tilfellum hag sinn í því að senda einkahlutafélögin sín yfir bjargbrúnina. Vissulega eru tillögurnar í grófum dráttum og háðar nánari útfærslum. Hugmyndirnar ættu þó að geta kveikt aðeins í umræðunni þar að núverandi lagaumhverfi fyrirtækja er svo sannarlega ekki hafið yfir málefnalega gagnrýni.

Gjaldþrot

Ofangreindu til viðbótar er vert að brýna fyrir kröfuhöfum að nýta sér heimild til að krefjast riftunar á hinum ýmsu fjármálagjörningum þrotamanns kortéri áður en gjaldþrotameðferð hefst. Riftunarreglur XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gefa skiptastjóra þrotabús heimild til að ónýta afturvirkt hina ýmsu gjörninga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að meginregla laganna um jafnræði kröfuhafa sé virt. Oftar en ekki er unnt að draga töluvert fleiri eignir undir skiptin þar sem algengt er að félög í nauð reyni að koma eignum til tengdra félaga með sýndar- eða gjafagjörningum.

Auk þessa ber jafnframt að ítreka það að skilasvik eru refsiverð skv. 250. gr. almennra hegningarlaga. Í skilasvikum felast undanskot eigna úr þrotabúinu á þann hátt að þær koma kröfuhöfum ekki að því gagni sem hefði átt skv. lögum.  Allar grunsemdir um slíkt ber að tilkynna til lögreglu. Í húfi geta verið umtalsverð verðmæti og af gefnu tilefni er vert að fram komi að hægt er að tilkynna um skilasvik þó svo að formlegri skiptingu þrotabúsins sé lokið.

Að lokum

Hér hefur í afar einfölduðu máli verið farið yfir lagaumhverfi einkahlutafélaga út frá gagnrýnu lagasiðferðilegu sjónarhorni. Einlæg von höfundar er sú að lesendur skilji þetta ekki svo að allir forsvarsmenn einkahlutafélaga séu settir í sama hatt sem einhvers konar fjárhagslegir gereyðendur. Rakhnífnum er einungis beint gegn kennitöluflakki í vondri trú. Höfundur gerir sér fulla grein fyrir því að enginn heiðarlegur viðskiptamaður fer af fúsum og frjálsum vilja í gegnum þann harmleik að vera í fyrirsvari fyrir einkahlutafélag sem missir forræði á búi sínu.

Félagsmenn eru að sjálfsögðu hvattir til að leita til undirritaðs með frekari spurningar og ráðleggingar um efnið og bjóða félögin góðfúslega fram sína aðstoð við að stöðva þetta böl sem hvílir á íslensku viðskiptalífi.

Halldór Oddsson

Halldór Oddsson, lögfræðingur MATVÍS og RSÍ

www.matvis.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið