Vertu memm

Veitingarýni

Flottur staður með farsæla sögu

Birting:

þann

Veitingastaðurinn Kol við Skólavörðustíg

Kol við Skólavörðustíg lætur ekki mikið yfir sér en þessi vinsæli staður ber vel sex árin sem hann hefur verið starfandi. Staðurinn hefur náð að skapa sér gott orð í veitingaflóru Reykjavíkur á þessu tímabili.

Við ákváðum að renna við hjá þeim um daginn, núna þegar ferðamenn voru á hraðferð út úr landi og kórónuveirufaraldurinn að herða tökin, okkur langaði að sjá hvað staðurinn hefur uppá að bjóða.

Mig langaði einnig til að spjalla aðeins við Sævar Lárusson yfirmatreiðslumann um nýja seðilinn hjá þeim og hvernig þeir ætla að takast á við breyttar aðstæður.

Til gamans þá fór ég á netið áður en ég fór á staðinn, því mig langaði aðeins að skoða „netsöguna“, eins ég geri iðulega áður en ég fer út að borða en þar kennir oft margra grasa og skemmtilegra.

Veitingastaðurinn Kol við Skólavörðustíg

Á netinu er að finna mjög fjölskrúðugar myndir og umfjallanir um Kol frá liðnum árum enda gleymir netið ekki neinu. Mér finnst einnig gaman að skoða matseðla veitingastaða á netinu en það vill æði oft brenna við að það er lítil rækt lögð við að uppfæra og stafsetja rétt. Matseðilinn hjá Kol er mjög aðgengilegur og heimasíðan í allastaði smekkleg, auðvelt er að panta borð á síðunni.

Sjá fleiri fréttir hér.

Þetta verður svona „casual fine dining“

Á netinu rakst ég einnig á gamalt viðtal við einn af frumkvöðlunum og sem var birt í Fréttablaðinu 7 des 2013 og ég tók mér það bessaleyfi að birta hluta af því hér og sem hljóðar svona:

„Þetta verður svona „casual fine dining“ veitingastaður en við ætlum einnig að hafa hann svona stemningastað því við erum líka með stóran bar,“

segir Óli Már Ólason, einn þriggja eigenda nýs veitingastaðar sem ber nafnið Kol Restaurant. Ásamt Óla eru þeir Stefán Magnússon, Andri Björn Björnsson og Sævar Lárusson eigendur staðarins.

Gamalt hesthús

„Við viljum gjarnan nýta hesthúsið sem er í bakgarðinum.“ Í bakgarðinum stendur elsta hesthús Reykjavíkur og er stefnt að því að nýta það sem hluta af staðnum.  Húsafriðunarnefnd berst nú fyrir því að það verði ekki rifið en við viljum tengja það veitingastaðnum,“

bætir Óli við.

Metnaðarfullir eigendur

Svo mörg voru þau orð en ég veit að nú eiga einnig nokkrir lykilmenn í staðnum, en það eru Óli Már Ólason, Andri Björnsson, Gunnar Rafn Heiðarsson og Sævar Lárusson. Það hefur runnið mikið vatn til sjávar síðan þessar línur voru skrifaðar, sumt hefur breyst og annað ekki en metnaðurinn hjá eigendum og starfsmönnum Kol virðist vera sá sami.

Veitingastaðurinn Kol við Skólavörðustíg

Mikilvægt að halda í frábært starfsfólk

Ég koma fyrst við í eldhúsið til að spjallaði við Sævar Lárusson yfirmatreiðslumann áður en við settumst en ég hef fylgst með honum lengi eða frá því að hann byrjaði að læra enda er feikilega metnaðarfullur og duglegur matreiðslumaður sem er þar á ferð.

Sævar sagði mér að núna væru verið reyna að mæta breyttum tímum á ýmsan máta því það skipti máli að halda í frábært starfsfólk og mikilvæga fastagesti, til dæmis hefðu þeir breytt matseðlinum verulega og sett inn mikið af smáréttum og léttari smakki sem hefði slegið í gegn og væri vinsælt bæði hjá íslensku og þeim fáu erlendu eftirlegukindum sem væru á ferðinni. En sannarlega væru þetta erfiðir tímar þar sem ekki má reka á reiðanum heldur andæfa og halda sjó viturlega.

Matseðilinn á Kol er mjög fjölbreyttur og það sem við fengum að smakka var virkilega spennandi, en eins og venjulega þá ætla ég að láta myndirnar tala en svo sannarlega má mæla með heimsókn á Kol.

Þjónustan var einnig til háborinnar fyrirmyndar og var gaman hversu vel þjónninn var vel að sér í matseðlinum og hvað var verið að bjóða uppá.

Veitingastaðurinn Kol við Skólavörðustíg - Reyktur lax

Veitingastaðurinn Kol við Skólavörðustíg

Veitingastaðurinn Kol við Skólavörðustíg

Ólafur Sveinn er menntaður sem matreiðslumeistari og rekstrarfræðingur af matvælasviði frá Göteborg Universitet. Í dag starfar Ólafur hjá HSS í Reykjanesbæ og hefur skrifað lengi um veitingastaði ásamt ljósmyndun fyrir veitingastaði og hótel. Hægt er að hafa samband við Ólaf á netfangið [email protected]

Veitingarýni

20 & sjö mathús og bar

Birting:

þann

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Móðir mín flutti í Tunguselið þegar Seljahverfið var að byggjast um 1978 en það kallaði hún að flytjast upp fyrir snjólínu og inn á öræfin. Það var nú kannski ekki alveg svona slæmt en fyrir 105 manneskju var lítið eða ekkert „líf“ þarna uppfrá og er það ennþá svoleiðis í efri byggðum Reykjavíkur.

Fyrir ofan „snjólínu“ eða í efri byggðum borgarinnar er „varla“ að finna betri veitingastað sem ekki er austurlenskur eða pizzastaður en nú er það að breytast.

Það varð breyting því á vormánuðum, mitt í pestarfaraldrinum fór stórhuga fjölskylda af stað og opnaði veitingastaðinn 20 & sjö mathús og bar, sem er staðsettur í Víkurhvarfi 1 í Kópavoginum.

Ég átti heimboð þangað og síðastliðið sunnudagskvöld og ákvað að bjóða góðri vinkonu minni með mér, vitandi að hún fer mikið út að borða og á „gleði tíma“ með sínum vinkonum.

Mér fannst hún vera tilvalin félagsskapur því mér finnst frekar leiðinlegt að fara einn og gaman að hafa fólk með sér með reynslu,  því það upplifir hlutina á annan máta en ég.

Fjölskyldustaður

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Hringur Helgason

20 & sjö er fjölskyldurekinn veitingastaður þar sem allir leggja hönd á plóg og það var hann Hringur Helgason sem tók á móti okkur með með stæl en faðir hans Helgi stóð vaktina í eldhúsinu með öðrum þetta kvöldið.

Það kom mér á óvart hversu stór og vinalegur staðurinn er, smekklega innréttaður, ekki neinn íburður  bara smart og notalegt. Hringur sagði mér að fjölskyldan hefði dundað sér við það í nokkra mánuði að innrétta „allt“ sjálf.

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Feðgarnir Helgi og Hringur

Við vorum leidd um húsið og okkur bent á að hér væri hægt að taka móti nokkuð stórum hópum og einnig þeim sem vildu vera aðeins prívat.

„Og þar sem við leggjum áherslu á að þetta sé fjölskylduveitingastaður þá erum við með góðan barnamatseðil og flott barnahorn“

hélt hann áfram stoltur.

Í samvinnu við Hring ákváðum við síðan að fá okkur aðeins sýnishorn af nokkrum vinsælustu réttunum þeirra, hann sagði mér að reyndar væri örlítið erfitt að velja þar sem staðurinn hefði fengið mjög góðar móttökur og það færi mikið af öllu.

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Við fengum frábæran forrétt gerðan af nýjum og sýrðum rauðrófum sem var sérlega frískandi og bragðgóður.

Tennessee reykofn

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Rifin voru alveg sér á bát og algjört sælgæti og ég vill meina með þeim betri sem eru í boði hér á landi.

Síðan hélt hann áfram:

“Við ákváðum í upphafi að fjárfesta í reykofni svo er svo kölluðum Tennessee týpu og við notum hann mikið. Við erum til dæmið með BBQ rif sem eru ekki neinu lík og ekki löðrandi í BBQ sósu heldur þurrkrydduð og mjög sér á báti. Það sama er með Pastrami, við söltum það sjálf, kryddum með okkar eigin blöndum og reykjum og sumir af  veganréttunum okkar eru reyktir í þessum töfraofni“

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Við báðum bara um prufur af matnum og hér er það Pastramið sem að mín mati var meiriháttar.

sagði hann ánægður.

„Við viljum vera með mat fyrir alla og sérstaklega að fjölskyldan geti komið hingað og allir finni  eitthvað fyrir sig,  við leggjum líka mikla áherslu á að vera með spennandi grænmetisrétti sem við gerum að sjálfsögðu frá grunni eins og allt annað. Við gerum allt frá grunni hérna, það er bara regla,“

hélt hann áfram.

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Líbönsk kjúklingaspjót borin fram á nýbökuðu flatbrauði.

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Svartur hummus gerður úr svörtum baunum, kryddblöndu hússins og hægelduðum og svertu hvítlauk ásamt öðru góðgæti.

Öðruvísi „drekkutími“

„Síðan erum við með brunch á laugardögum sem er mjög vinsæll en rúsínan í pylsuendanum er að við erum með Happy Hour frá klukkan 16:00 alla daga og þá fylgir tapasréttur með hverjum drykk,  þetta hefur slegið í gegn. Þú bara pantar drykk og færð snarl með, ekki neinn aukakostnaður eða vesen, bara notalegheit,“

sagði hann að lokum og brosti.

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Smakk skammtur af reyktu vegan lasagne

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Frábær þýska pönnukaka sem kom kraumandi inn með ótrúlega góðum ís og bökuðum eplum.

Það er gaman að fara út að borða en enn skemmtilegra að upplifa nýja staði í gegnum aðra og svo var þetta kvöldið og það var gaman að fylgjast með vinkonu minni og hversu mikið staðurinn og maturinn kom henni á óvart.  Hún sagði mér síðan á leiðinni heim að hingað kæmi hún alveg örugglega aftur og þá væri það „saumaklúbburinn“ sem kæmi með og eins og hún sagði;

„ég borða aldrei vegan rétti, mér bara finnst þeir ekki alltaf góðir en þarna voru þeir með þetta frábæra grænmetis lasagne með reykbragði – algjör snilld“.

20 & sjö mathús og bar er í Víkurhvarfi 1 og ekki skemmir fyrir að þar er nóg af bílastæðum.

Tuttugu og sjö Mathús og Bar

Öll þjónusta var sérlega til fyrirmyndar og gott úrval af vönduðum vínum

Lifið heil.

Myndir: Ólafur Sveinn Guðmundsson / Veitingageirinn.is

Lesa meira

Veitingarýni

Viet Noodles – Nýr veitingastaður við Grandagarð – Veitingarýni

Birting:

þann

Viet Noodles, Grandagarði 9, Reykjavík

Veitingahjónin Thang og Duyen

Mér finnst austurlenskur matur bæði góður og spennandi en ég veit lítið um þessa matargerð og það skal ég fúslega viðurkenna en það veit ég að austurlenskra mataráhrifa gætir víða í okkar vestræna eldhúsi. Sem betur fer er þetta svona enda væri matreiðslan í dag mun fátæklegri ef ekki væru þessi spennandi áhrif að utan.

Frekar kjána- og barnalegt er samt að tala um einhverja sérstaka austurlenska matargerð því að hér er um að ræða ótrúlega fjölbreytta flóru af spennandi bragði, áhrifum, aðferðum og tala nú ekki um ótrúlega mismunandi  hráefni víðs vegar úr Asíu.

Þessi matargerð spannar meira eða minna alla Asíu og nærliggjandi heimsálfur og það er töluverður og vel merkjanlegur munur á milli helstu straumanna.

Viet Noodles, Grandagarði 9, Reykjavík

Sólborg Jónsdóttir er sérleg áhugakona um austurlenska menningu og tungumálakennari.

Ég var því upprifin þegar góð vinkona mín og tungumálakennarinn hún Sólborg Jónsdóttir sem hefur haft mikið með íslenskukennslu fyrir innflytjendur að ger hringdi í mig eitt kvöldið og spurði mig hvort ég væri ekki til í að renna við á nýjum veitingastað með henni, Viet Noodles sem hjónin Thang og Duyen voru að opna á Grandagarði 9. Að sjálfsögðu þurfti ekki miklar fortölur til að fá mig með.

Aðeins öðruvísi

Hjónin tóku fagnandi á móti okkur þegar við birtumst á umsömdum tíma þrátt fyrir að nóg virtist vera að gera. Staðurinn er nýr og er mjög aðlaðandi og vinalegur og það sést að hér eru snyrtipinnar við stjórnvöllinn. Staðurinn er ekki með þetta hefðbundna „Kína veitingastaða útlit“ heldur huggulegur matsalur með dempuðum hljóðum og ljósum eða eins og maður segir virkilega notalegt umhverfi.

Það var gaman að spjalla við hjónin enda vita þau mikið um víetnamskan mat og tala alveg ljómandi góða íslensku sem Sólborg var nokkuð stolt af að sjálfsögðu. Þau báru sig vel en viðurkenndu fúslega að þetta væri ekki besti tíminn til að opna veitingastað, þrátt fyrir að þau væru reynsluboltar og  búin að vera í þessum bransa hátt í 20 ár.

Spennandi réttir

Thang valdi fyrir okkur nokkra rétti af matseðlinum sem hann sagði að væru frekar hefðbundnir fyrir sitt land og matarmenningu en þegar ég fór að spyrja hann frekar út í muninn víetnamskri og annarri  matargerð í þessum heimshlut þá tókst hann allur á loft og benti mér á að hér væri mikill munur á bæði milli héraða, landa og menningarheima.

Viet Noodles, Grandagarði 9, Reykjavík

Pönnukökur með ýmsu góðgæti.
Pönnukökur úr hrísgrjónamjöli sem eru fylltar með rækjum, hrísgrjónanúðlum, svínakjöti, salati og kóríander. Bornar fram með sósu til að dýfa í og salati úr fersku grænmeti, kryddjurtum og víetnamskri dressingu. Ferskt og bragðgott.

Til dæmis sagði hann að víetnamskur matur væri yfirleitt léttur og þar væri lítil olía notuð, lítið væri djúpsteikt samanborið við t.d tælenska matargerð. Krydd og karrý væri frekar sparlega notuð og mikil áhersla lögð á jafnvægi í réttum.  Samsetningin einkenndust frekar af einfaldleika, litargleði og góðu samræmi á milli bragða eins og salts, sýru, sætu og mismunandi kryddjurta.  Reynt væri að laða það besta fram úr hráefninu og ekki að láta krydd yfirgnæfa eða þungar sósur.

Viet Noodles, Grandagarði 9, Reykjavík

Grillað svínakjöt og fleira gott.
Spennandi og bragðgóður réttur þar sem fer saman grillað svínakjöt, „vietnamese style“ núðlur, vorrúllur með m.a. krabbakjöti  og brakandi salat.  Þessi réttur hefur náð hæðstu hæðum vinsælda eftir að Barack Obama fyrrum USA forseti fékk sér þennan rétt í heimsókn sinni til landsins hér um árið.

Thang sagði okkur einnig að hjá þeim hjónum væri mikill metnaður að gera allt frá grunni sem og að allt hráefnið væri fyrsta flokks enda væri það algjör forsenda fyrir góðum árangri.

Viet Noodles, Grandagarði 9, Reykjavík

Kjúklingur með sesam og pipar.
Bragðgóður og hollur réttur með fullt af grænmeti í sesam og piparsósu.

Ég gæti haldi áfram lengi og skrifað mikið um matinn sem okkur var borinn þetta kvöldið en ég mæli frekar eigndregið með heimssókn til Viet Noodles sem eru úti á Granda móti Sjóminjasafni Reykjavíkur. Maturinn var sérlag góður og verðlagning allri stillt mjög í hóf, ásamt því að sjálfsögðu er það er gaman að prófa virkilega góðan og vandaðan víetnamskan mat.

Viet Noodles, Grandagarði 9, Reykjavík

Viet Noodles, Grandagarði 9, Reykjavík

Kaffi.
Víetnamskt kaffi er með léttu smjörkenndu bragði og þessi kaffidrykkur með sætri mjólk og ísmolum er algjört sælgæti. Mæli virkilega með að prófa þetta.

Að sjálfsögðu eru fleiri klassísku víetnamskir réttir á matseðlinum eins og Pho – núðlusúpa sem er súpa gerð úr soði af nautakjöti eða kjúklingi,  ferskum hrísgrjónanúðlum og grænmeti.

En svona í lokin þá fengum við okkur mango boost sem ég held að hafi slegið öllum fyrri boostum út.

Lifið heil.

Myndir: Ólafur Sveinn

Lesa meira

Veitingarýni

North West – Veitingarýni

Birting:

þann

North West Hotel & Restaurant, Víðidal, Húnaþingi vestra

Staðurinn var þéttsetinn og greinilegt að veitingastaðurinn er ofarlega í hugum margra.

Fyrir um fimm árum síðan voru gerðar miklar framkvæmdir á veitingaskálanum Víðigerði, Húnaþingi vestra þegar nýir eigendur tóku við.  Staðurinn fékk nýtt nafn og heitir í dag North West Hotel & Restaurant.

„Við erum í langhlaupi í þessu, við kaupum bestu vöruna sem við teljum okkur komast í og trúum því að það skili sér á endanum, sem það er að gera. Enda mikil aukning á hverju ári.

Við finnum að margir Íslendingar eru meira en til í að að stoppa annars staðar en á bensínstöð á ferð sinni um landið og fá sér að borða. Við vonum bara að fólk sýni okkur þolinmæði á meðan við erum að klára að dusta rykið af þessum stað.“

Sagði Kristinn Bjarnason, veitingamaður hjá North West í samtali við DV, árið 2018.

North West Hotel & Restaurant, Víðidal, Húnaþingi vestra

Fiskur og franskar

Það má með sanni segja að eigendur North West hafa unnið markvisst að því að gera staðinn glæsilegan, en ég hef komið þangað oft og hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum.  Ég hef reyndar oftast keypt mér Fisk og franskar (Fish & Chips) og sá réttur hefur ávallt verið upp á tíu.  Einstaklega skemmtilegt og frábrugðið frá öðrum vegasjoppum, er að fá kokteilsósu og salat sem lagað er á staðnum.

North West Hotel & Restaurant, Víðidal, Húnaþingi vestra

Kokteilsósan og salatið er lagað á staðnum.

North West er veitingastaður, hótel, kaffihús og söluturn, en á efri hæð aðalbyggingarinnar eru níu hótelherbergi með sér baði og sameiginlegri setustofu.

Að undanförnu hef ég valið North West fram yfir Staðarskála þar sem mér finnst meiri metnaður hjá North West, persónulegri þjónusta og allt til fyrirmyndar.

North West Hotel & Restaurant, Víðidal, Húnaþingi vestra

Ef eitthvað mætti setja út á, er að það megi prenta matseðlana oftar út, en þeir verða þreyttir að sjá eftir stutta notkun, þegar þeir eru ekki í plasti.  Mjög góður matur og góð þjónusta.

Aðrir fengu sér hamborgara og eftirrétt og voru mjög ánægðir með matinn.

North West Hotel & Restaurant, Víðidal, Húnaþingi vestra

North West Hotel & Restaurant, Víðidal, Húnaþingi vestra

Volg brownie með vanillu ískúlu, súkkulaðirjómi, karamellusósa, jarðarberjasósa, daim og fersk ber.
Fékk að smakka og þvílíkt sælgæti.

Myndir: Smári / Veitingageirinn.is

Lesa meira

Podcast/hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:

Mest lesið í dag