Vertu memm

Keppni

Fish & Chips vagninn og Jömm með áhugaverðustu götubitana – Myndir frá Götubita hátíðinni

Birting:

þann

Reykjavik Street Food - Götubitahátíð 2019 - Lobster Hut

Götubitahátíðin var haldin á Miðbakkanum í Reykjavík 19. til 21. júlí s.l.

Götubita hátíðin Street Food Festival var haldin á Miðbakkanum í Reykjavík s.l. helgi, 19. til 21. júlí.  Um tuttugu veitingavagnar, -gámar og -básar voru á staðnum þar sem hægt var að versla fjölbreyttan og girnilegan götubita.

Fish & Chips vagninn sigraði í fyrstu götubitakeppninni á Íslandi

Fish & Chips Vagninn

Fish & Chips Vagninn er staðsettur í Vesturbugt í Reykjavík, rétt vestan við gamla slippinn, frá kl. 11 að morgni til kl. 20.30 á kvöldin.
Mynd: facebook / Fish & Chips Vagninn

Samhliða hátíðinni var haldin fyrsta keppnin í “Iceland Street Food Awards” þar sem fjölmargir íslenskir aðilar kepptu um titilinn besti “Götubitinn 2019”.

Það var Fish & Chips vagninn sem hreppti titilinn “Götubitinn 2019” og þar með þátttökurétt að keppa fyrir Íslands hönd í alþjóðlegri keppni – “European Street Food Awards” sem haldin verður í Malmö í Svíþjóð í lok september og kynna þar í fyrsta skiptið íslenskan götubita.  Framkvæmdastjóri Fish & Chips matarvagnsins er Árni Rúdolf Árnason, en vagninn er í eigu Fiskkaup hf.  Yfir sumarið er vagninn staðsettur við Slippinn út á Granda.

Jömm valið Götubiti fólksins 2019

Jömm

Gleðisprengjurnar Linda Ýr Stefánsdóttir og Signý Ylfa Sigurðardóttir með verðlaunin.
Mynd: facebook / Jömm

Einnig var kosið um Götubita fólksins 2019 og var það vegan staðurinn Jömm sem hlaut þann titil.  Jömm byrjaði sem pop-up skyndibitastaður í gámi á Skeifuplaninu sumarið 2018. Þar framreiddi ofvirkt vegan starfsfólk sóðalega Oumph! rétti í sönnum götumatarstíl. Bragðmikið, einfalt og toppað með óhóflegu magni af vegan mæjósósum.

Eftir að markaðurinn pakkaði saman í lok sumars upphófst mikill söknuður bæði hjá Jömm fíklum og eigendum og því var ákveðið að snúa aftur í Veganúar 2019 með djúsí Oumph! samlokur sem fást nú víða á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem Jömm sósurnar er nú hægt að kaupa í verslunum Hagkaups og Nettó.

Þann 1. maí 2019 opnaði svo Jömm skyndibitastaðurinn aftur á Kringlutorgi og er þar kominn með varanlega staðsetningu.

Upprunalegi Jömm gámurinn var dreginn fram aftur helgina 19. – 21. júlí 2019 í tilefni Reykjavík Street Food hátíðarinnar og var sem fyrr segir valinn Götubiti fólksins í ár.

Dómarar í keppninni voru Ólafur Örn Ólafsson framreiðslumaður, Binni Löve samfélagsmiðlastjarna, Fanney Dóra Sigurjónsdóttir matreiðslumaður, Shruti Biasappa hjá Grapevine og Björg Magnúsdóttir hjá RÚV.

Myndir: Ólafur Sveinn Guðmundsson / Veitingageirinn.is

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið