Vertu memm

Pistlar

Er tíminn afstæður?

Birting:

þann

Andreas Jacobsen, matreiðslumaður

Ég er pirraður maður að eðlisfari og fer fátt meira í taugarnar á mér heldur en óstundvísi.  Í nútíma samfélagi er nánast allt tímasett á einn eða annan veg.  Allar almenningssamgöngur eru tímasettar, þó svo skiptar skoðanir eru um hvort þessar tímasetningar standist.  Ef eitthvað amar að þér og þú þarf að leita til náðar heilbrigðisgeirans er einnig nauðsynlegt að fá úthlutaðan tíma, einnig hér eru skiptar skoðanir á sveimi.  Opnunartími verzlana. Panta þarf tíma á bílaverkstæði, í klippingu, hjá sálfræðingi.

Nemendur í skólum landsins skulu mæta á tilsettum tíma eða hljóta refsingu fyrir í formi einhverskonar punkta.  Atvinnurekendur ætlast meira að segja til, að menn rífi sig á fætur fyrir allar aldir og drattist í vinnu á réttum tíma. Annars verða menn hýrudregnir eða reknir, eða jafnvel bæði.  Síðasta dæmið sem ég hef kynnst (og þar sem ektakvinnan mín er leikskólakennari, hefur þetta umræðuefni valdið skemmtilegt koddahjal) er í leikskólum Reykjavíkurborgar, þar bera menn að sækja afkvæmi sín á tilsettum tíma, þótt svo að maður sé mjög svo upptekin maður og svo til ómissandi á vinnustaðnum (að eigin sögn), þessi staðreynd um eigið ágæti, skiptir þó engu máli í heimi dagvistunarinnar. Barnið er með vistun til 16 og ber því að ná í það klukkan 16, ekki 16:15, og alls ekki klukkan 17:00.

Eins og ofantalin upptalning sýnir, er nánast allt í kringum okkur tímasett á einn eða annan veg.  Og bera allir fullan skilning á því að virða þessar tímasetningar.  Annars myndi þjóðfélagið eins og við þekkjum það væntanlega ekki ganga.  En þegar kemur að veitingageiranum gilda allt í einu einhverjar allt aðrar leikreglur ???  Þetta sama fólk, sem fyrr um daginn ætlaðist til að maður mætti á réttum tíma hjá tannlækninum, hjá rakaranum, hjá sála, og síðast en ekki síst að ná í afkvæmin á tilsettum tíma, eiga nú öll pantað borð klukkan 19, en engin mætir á réttum tíma ?  Þegar þau mæta svo 30-60 mínútum of seint, setur þjóninn upp sparibrosið, býður þeim fordrykk og lætur eins og ekkert sé.  Borðin eru auðvitað tvíbókuð og eina vonin er að seinna „hollið“ er jafnt óstundvíst og fyrra „hollið“.

Annað sem mér þykir furðulegt er að opnunartími veitingahúsa er hunsaður í hvívetna.  Ég efast ekki um að einhverjir hafa lent í því að þurfa að opna 1-2 klukkutímum fyrr til að sinna þörfum einhvers viðskiptavins.   Einnig eru lokunartímar hundsaðir, hversu oft hafa „bakka-berarnir“ ekki þurft að hanga yfir borði í 2-3 klukkutíma, fram yfir auglýstan lokunartíma, og þetta sama fólk verður svo stein-hissa þegar þjóninn missir loks þolinmæðina og biður þá (kurteisislega) að yfirgefa svæðið.  Ég var til dæmis  staddur í verzlun um daginn og klukkan 18 lokaði verzlunin og var ég þá strax beðinn að yfirgefa verzlunina, engin skilningur var sýndur þótt svo að innkaupsleiðangrinum mínum var engan vegin lokið.   Hvernig stendur á þessu ?  Gilda einhverjar aðrar þjóðfélagsreglur í veitingargeiranum ?  Mér er spurn um hvort að þetta sé vandamál sem að alltaf hefur verið til staðar, er þetta svona allstaðar í heiminum eða bara landlægt ?  Er hægt að gera eitthvað til að bæta úr þessu ?   Ég þykist vera nokkuð viss um að borðanýting og vinnuálag myndi stórlagast ef allar tímasetningar stæðust, bara svona eins og annarstaðar í þjóðfélaginu.

Andreas Jacobsen  – mai 2002

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið