Vertu memm

Uppskriftir

Bufftartar hugmyndir – Hvernig varð bufftartar til?

Birting:

þann

Bufftartar

Bufftartar

Sagt er að uppskriftin að „tatarabuffi“ (bufftartar) hafi orðið til í gamla daga þegar tatarar settu hrátt kjöt milli hnakks og hest til að kjötið yrði meyrt meðan þeir voru á reið. Síðar komust menn að því, að ef kjötið var skafið varð það algjört sælgæti.

Óneitanlega eru bestu hrábuffin úr sköfnu nautakjöti, en algengast er að þau séu gerð úr hökkuðu nautakjöti. Notið lundir eða innanlæri.

Áríðandi er að kjötið sé nýhakkað og sé ekki handfjatlað meira en nauðsyn krefur.

Ótal afbrigði eru til af tatarabuffi. Hér eru nokkrar uppskriftir og í þeim er gert ráð fyrir 150 gr af hökkuðu kjöti á mann.

Franska hrábuffið

Hellið tveimur eggjarauðum á mann í skál, hrærið í með trésleif og bætið út í 1/2 matsk. af frönsku, ljósu sinnepi, 2 matsk. olíu, 1/2 matsk. söxuðum lauk, 1/2 matsk. kapers, tveim skvettum af Worcestershiresósu og tveim skvettum Tabasco sósu.

Hrærið og bætið síðan út í 150 g af hökkuðu kjöti á mann.

Hrærið í með gaffli, setjið svolítið salt og pipar, leggið farsið á disk og mótið buffið svo það sé um 1,5 sm að þykkt. Grillið buffið ef einhver vill það heldur þannig. Stráið yfir saxaðri steinselju. Berið hrásalat með, súrmeti og ólivur.

Tatarabuff

Hrátt buff með miklum pipar fyrir þá sem vilja sterkan mat. Blandið saman 1 tesk af rifnum lauk, 1 tesk chilidufti og einni matsk. chilisósu á mann og hrærið kjötinu saman við með gaffli.

Motið lítil buff og skreytið með söxuðum sveppum, saxaðri papriku og steinselju, og ólivusneiðum

Pan American tatarabuff

Mótið stór ferköntuð hrábuff, ekki of þykk og skreytið með svörtum kavíar, söxuðum lauk og eggjarauðu.

Venjulegt tatarabuff

Mótið buff úr hakkinu, gerið í það skorur með hnífsegg og skreytið meö kapers, piparrót, söxuöum rauðrófum og fíntsöxuðum lauk. Setjið eggjarauöu innan 1 laukhring á miðjuna og berið fram salt og svartan pipar, helst í piparkvörn.

Breskt tatarabuff

Hrátt hakkabuff er skreytt með enskum súrum „pickles“ og í miðjuna er sett hálft linsoðið egg.

Sólaruppkoma

Mótið lítil buff og skreytið með fínt saxaðri púrru, litlum sneiðum af kryddsíld og setjið hráa eggjarauðu í miðjuna.

Fróðleikur þessi var birtur í heimilistímanum árið 1977.

Mynd: úr safni

Uppskriftirnar á veitingageirinn.is eru frá fagmönnum og áhugafólki á matargerð sem skilar fjölbreyttar og bragðgóðar uppskriftir til þín. Ef þú lumar á uppskrift sem þú vilt birta á veitingageirinn.is sendu okkur þá uppskriftina ásamt nafni á [email protected]

Uppskriftir

Sjónvarpskaka – Upprunalega uppskriftin

Birting:

þann

Sjónvarpskaka - Uppskrift

100 gr. smjör og 75 gr. af sykri er hrært saman og bætt út í 1 eggi, 50 gr. af hrísmjöli, 50 gr. af kartöflumjöli og 50 gr. af af hveiti. Þetta er allt hrært vel saman og deigið sett í lagkökubotn.

Ofan á deigið er sett apríkósumauk, eplamauk, bananamauk, jarðarberjamauk eða ananasbitar, þar ofan á er dreift grófum sykri og bakað í 15 — 20 mínútur í ofninum.

Mjög gott er að hafa þeyttan rjóma með vanillusykri í ofan á kökunni.

Til fróðleiks um nafnið á sjónvarpskökunni er hægt að lesa með því að smella hér.

Höfundur óþekktur, en uppskrift þessi birtist fyrst í Alþýðublaðinu árið 1966.

Mynd: skjáskot af Alþýðublaðinu / Timarit.is

Lesa meira

Uppskriftir

Serranóvafin hörpuskel með brenndu salvíusmjöri – Dúndur forréttur

Birting:

þann

Serranóvafin hörpuskel með brenndu salvíusmjöri - Forréttur

Serranóvafin hörpuskel með brenndu salvíusmjöri – Forréttur

Hörpuskel er kjörið að bera fram sem forrétt til að tendra bragðlaukana. Hana má ekki elda lengi, annars er hætta á að hún verði gúmmíkennd og jafnvel seig undir tönn.

Serranóskinka kemur frá Spáni og er einstaklega bragðgóð. Auðvitað væri hægt að nota parmaskinku eða jafnvel beikon. Ef beikon verður fyrir valinu er nauðsynlegt að steikja það í gegn. Beikonið ver hörpuskelina fyrir hitanum og leggur til ljúffengt bragð.

Steikt salvía er sælgæti og passar hreint út sagt ljómandi vel með þessum rétti. En það verður auðvitað að nota ferska salvíu. Þurrkuð salvía mun ekki gera neitt fyrir réttinn – nema gera hann verri! Og það er engin ástæða til að skemma dásamlega góðan mat!

Fyrir fjóra sem forréttur

12 hörpudiskar
6-12 sneiðar serranóskinka (háð stærð)
safi úr ½ sítrónu
salt og pipar
75 g smjör
12-15 salvíulauf

Vefjið hverja hörpuskel með hálfri til einni sneið af serranóskinku, penslið með olíu, vætið með ferskum sítrónusafa, saltið og piprið.

Rennið tveimur spjótum í gegnum hörpuskelina (þá er maður snarari við að snúa þeim og það heldur skinkunni á sínum stað – jafnframt er mikilvægt að láta spjótin liggja í vatni í um klukkustund til að síður kvikni í þeim).

Kyndið grillið og þegar það er blússheitt er hörpuskelin elduð í eina til eina og hálfa mínútu á hvorri hlið. Setjið til hliðar.

Serranóvafin hörpuskel með brenndu salvíusmjöri - Forréttur

Skellið pönnu á grillið og bræðið smjörið. Þegar það hefur hljóðnað er salvían sett á pönnuna og steikt þar til hún verður stökk – hafið auga með pönnunni þar sem þetta tekur einvörðungu nokkrar sekúndur.

Leggið svo hörpuskeljarspjótin á disk, raðið salvíu ofan á og hellið brúnuðu salvíusmjöri yfir.

Njótið!

Myndir og höfundur: Ragnar Freyr Ingvarsson, einnig þekktur sem Læknirinn í eldhúsinu.

Lesa meira

Uppskriftir

Uppskrift: Vanillu ástarpungar með viskí karamellusósu

Birting:

þann

Vanillu ástarpungar með viskí karamellusósu

Vanillu ástarpungar með viskí karamellusósu

Ástarpungar eru algjör klassík sem við þekkjum öll og elskum (haha). Það tekur enga stund að henda í deigið og þeir eru afskaplega einfaldir í steikingu. Ég mæli samt sterklega með því að nota olíu og sykur hitamæli eins og þennan hér við þessa uppskrift og þá sérstaklega karamellusósuna (sem er rugl góð).

Margir setja rúsínur út í sína ástarpunga en ég kýs að gera það ekki, það mun samt enginn stoppa þig ef þú laumast til þess.

Ástarpungar – 18-20 stk

Hveiti, 300 g

Lyftiduft, 0,5 tsk

Sykur, 30 g

Salt, 1/4 tsk

Vanillustöng, 1 stk

Egg, 2 stk

AB-mjólk, 250 g

Smjör ósaltað, 30 g

Hitaþolin olía til djúpsteikingar, 800 ml

Sykur + smá kanill til að velta upp úr.

 1. Bræðið smjör og látið kólna aðeins. Fræhreinsið vanillustöng. Pískið saman smjör, egg, AB-mjólk og vanillufræ.

 2. Pískið saman hveiti, lyftiduft, sykur og salt í stórri skál. Blandið því næst blautblöndunni saman við þurrblönduna og hrærið þar til allt hefur samlagast. Deigið verður klístrað og nokkuð þykkt.

 3. Hitið 800 ml af olíu upp í 180°C í potti. Notið ísskeið (þessar sem maður klemmir handföngin saman til að mynda kúlur) eða 2 skeiðar til þess að mynda pungana og setja varlega út í heita olíuna. Gott er að dífa skeiðunum í olíu inn á milli svo deigið festist ekki við þær. Steikið í 3.5-4 mín eða þar til pungarnir eru fallega brúnir og eldaðir í gegn.

 4. Færið ástarpungana á vírgrind til að kólna aðeins og veltið svo upp úr kanilsykrinum á meðan þeir eru enn heitir.

Viskí karamellusósa

Sykur, 200 g

Rjómi, 120 ml

Vanillustöng, 1 stk

Smjör ósaltað, 90 g

Viskí, 30 ml / Ég notaði Makers Mark

Flögusalt, 0,5 tsk

 1. Fræhreinsið vanillustöngina og hrærið fræjunum saman við rjómann.

 2. Setjið sykur í lítinn pott ásamt 60 ml af vatni. Hellið vatninu varlega yfir sykurinn svo enginn sykur skvettist upp í kantana á pottinum því það getur valdið því að sykurinn kristallist og skemmist þegar hann fer að sjóða.

 3. Stillið á miðlungshita og látið bubbla án þess að hræra í sykrinum þar til sykurinn verður að karamelllu, þetta getur tekið nokkrar mínútur en alls ekki fara frá pottinum því hluturnir geta gerst hratt og skyndilega. Hægt og rólega ætti liturinn á sykrinum að verða ljósbrúnn og dökkna svo í framhaldinu. Þetta byrjar að gerast við 160°C.

 4. Takið pottinn af hitanum þegar liturinn er farinn að minna á hlynsíróp en áður en hitinn nær 180°C. Hafið þá hraðar hendur.

 5. Hellið rjómanum hægt og rólega saman við karamelluna og pískið vel á meðan svo hann samlagist karamellunni. Karamellan mun bubbla kröftuglega og hleypa frá sér gufu þegar rjómanum er bætt við. Farið því varlega!

 6. Pískið smjörið næst saman við karamelluna og að lokum viskí og flögusalt.

 7. Færið karamelluna í skál eða krukku og látið kólna til fulls. Karamellan mun þykkna töluvert þegar hún kólnar.

Uppskrift og mynd: Matur og Myndir | Snorri Guðmundsson

Lesa meira

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:

Mest lesið